„Jæja, loksins veiddi ég Lax á flugu,“ sagði Rikki Sigmundsson og bætti við; „sko, ég hef veitt áður lax en það var árið 2007 með flugustöng í Norðurá en áin var mórrauð og 80 cm yfir meðalrennsli vegna undanfarinna rigninga. Til að „toppa“ daginn þá tók laxinn ekki fluguna, enda sá hann ekkert í gruggugri ánni, heldur húkkaði ég hann í bakið. Þrátt fyrir að leiðsögumaðurinn hafi peppað mig upp þá hef ég aldrei kallað hann maríulax. Þetta var heppni hjá mér en ekki sigur í að egna fyrir laxinum. Svo hef ég farið þrisvar í laxveiðiferð í Hólsá við Þykkvabæ og aldrei fengið neitt, né þegar ég fór í hálfan dag í Elliðaá. Nú er ég í Iðunni og er á minni þriðju og síðustu vakt og náði loks maríulaxinum, 58 cm hængur. Þetta var geggjað gaman, vonandi fer veiðilukkan að snúast mér í hag þegar kemur að laxveiði. Ég hef ekki hugmynd hvað flugan heitir,“ sagði Rikki enn fremur.
Rikki með maríulaxinn
Veiðar · Lesa meira