Maríulaxinn og fleiri fiskar

„Ólöf Magnúsdóttir, þjóðfræðingur frá Kópaskeri og æskuvinur minn, hafði samband við mig í vikunni og spurði hvort ég hefði nokkuð að gera á sunnudaginn,“ sagði Baldur Guðmundsson um eftirminnilegan sunnudag og bætti við; „Það fer eftir ýmsu, sagði ég tortrygginn. Þá sagðist hún eiga hálfan dag í Elliðaánum, en engar veiðigræjur – og kynni ekki að veiða. Við þær upplýsingar rann snögglega upp fyrir mér að ég hefði engin önnur plön á sunnudaginn, eða alla helgina ef því væri að skipta. 

Í dag rann upp sunnudagur og við klæddum okkur í skúrnum heima. Hvorugt okkar hafði veitt í Elliðaánum áður. Hún hafði einu sinni áður gripið í flugustöng en ég hef fátt annað aðhafst svo heitið geti síðustu 15 árin. Ég hef þó nánast eingöngu veitt silung. 

Þegar við fundum loksins veiðihúsið tóku á móti okkur þrír þrautreyndir leiðsögumenn, sem vísuðu okkur á bestu svæðin í ánni og sýndu okkur staðina. Fagmenn allir þrír.

Við Ólöf byrjuðum í Hundasteinum. Ég var rétt búin að sýna henni handtökin þegar hún setti í Maríulaxinn. Hún landaði honum eins og fagmaður eftir snarpa viðureign. Korter liðið af vaktinni. 59 cm hængur, sem tók svarta francis.

Ég kláraði vaktina í Hundasteinum og missti þrjá fiska í beit, sem allir tóku andstreymis. Tveir þeirra slitu 12 punda tauminn. Síðasta fisknum, þeim fjórða í röð, landaði ég eftir ágæta rimmu. 66 cm hængur.

Í Árbæjarhyl settum við hvort í sinn laxinn en misstum – annar slapp í löndun. Þar stökk við fætur okkar einn af 90 cm höfðingjunum, sem lagt hafa leið sína í borgarlækinn að undanförnu. 

Í Símastreng urðum við ekki vör en Ólöf landaði 67 cm hæng eftir mikla, tvísýna og í raun dramatíska baráttu á Hrauni. 

Fátt markverkt gerðist það sem eftir lifði vaktarinnar en áin er sannarlega kjaftfull af fiski. Hann stökk og lék sér út um alla á.

Frábær vakt að baki, okkar fyrsta í Elliðaánum. Vonandi hringir hún að ári. Þar fer sannarlega efnilegur veiðimaður,“ sagði Baldur enn fremur.

Ljósmynd/Baldur með lax úr Hundasteinum

Veiðar · Lesa meira

Elliðaár