„Veiðin gekk vel í Hallá og hollið veiddi sjö laxa og tvo sjóbirtinga,“ sagði Pétur Pétursson sem var að koma úr Hallá við Skagaströnd en fínt vatn er í ánni þessa dagana eins og víða á svæðinu, eftir miklar rigningar dag eftir dag.
„Ég hef aldrei veitt þarna áður og ekki strákarnir sem voru með mér, áin er fjölbreytt og það var fiskur víða í henni. Það eru komnir kringum 40 laxar og veiðin á eftir að vera góð í næstu hollum trúi ég. Var að hnýta nýja flugu fyrir þennan túr, litla flugu með litlum tungsten augum og laxinn tók hana, hún sekkur vel enda vatnið mikið í ánni. Stærsti laxinn var 65 sentimetra en misstum líka fimm laxa. Áin kom skemmtilega á óvart,“ sagði Pétur ennfremur.
Það eru vænir laxar í ánni og hafa verið að veiðast, svo það getur orðið fjör á næstunni, gott vatn og fiskur.
Mynd. Pétur Pétursson með lax úr Hallá en síðasta holl fékk sjö laxa og tvo sjóbirtinga.
Veiðar · Lesa meira