Vinsældir veiðisvæðisins í Eldvatnsbotnum hafa aukist mikið undanfarin ár enda hægt að fá þar fína veiði í fallegu umhverfi. Eldvatnsbotnar eru efsti hluti Eldvatnsins í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu. Áin á upptök sín í svokölluðu Rafstöðvarlóni sem er sunnan við bæinn að Botnum. Hún rennur í tveimur kvíslum úr vatninu og er veiði í báðum kvíslunum, einkum þó þeirri vestari. Veiðimenn hafa einnig aðgang að veiði í stöðuvatninu Fljótsbotni, en í því er bleikja og sjóbirtingur. Sjóbirtingur gengur fyrr í Eldvatnsbotna en á önnur sjóbirtingsmið á Suðurlandi og er besti tíminn þar frá því um 10.-14. ágúst og út ágústmánuð.