Haukadalsá á upptök sín í Haukadalsvatni sem er stærsta stöðuvatn Dalasýslu. Vatnið sér ánni fyrir stöðugum vatnsbúskap vel inn í ágúst jafnvel í verstu þurrkasumrum. Áin hefur verið kölluð hin fullkomna fluguveiðiá. Hún er einungis um 8 km löng en þó með um 40 merkta veiðistaði þannig að hér tekur hver veiðistaðurinn við af öðrum. Áin er kjörin fyrir flotlínu og smáar flugur og gárubragðið.