Við hringveginn, örskammt austan Víkur í Mýrdal, er ferðaþjónustubýlið Höfðabrekka. Þar er boðið upp á veiði í svonefndum Höfðabrekkutjörnum sem eru 3 talsins og alveg við hringveginn. Í þær var sleppt fiski hér áður fyrr, bæði bleikju og urriða. Stofninn varð smám saman sjálfbær og talsvert er þarna af fiski þótt sleppingum hafi verið hætt og þá helst í stærstu tjörninni. Þarna fæst oft góð veiði á stuttum tíma en svo lognast hún út af og varla nokkuð að hafa um tíma. Tjarnirnar eru frekar litlar en samgangur er á milli þeirra um smálæki.