Íshólsvatn er suður af Mýri í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er í 375 m hæð yfir sjávarmáli, er u.þ.b. 5,2 km² að flatarmáli og allt að 39 m djúpt. Í það rennur Rangá og ýmsir lækir og úr því Fiská. Í Íshólsvatni var allgóð silungsveiði en vatnið er lítið stundað nú á dögum. Sögur fara t.d. af mönnum sem hafa fengið háa meðalvigt af urriða. Stórbleikja er einnig þarna og einsog algengt er mergð af smárri bleikju. Nokkrar bleikjur skera sig úr og taka upp á því að éta meðbræður sína og systur. Skammt frá Íshólsvatni er Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti í fögrum stuðlabergsramma.