Kálfborgarárvatn er 3,5 km² stöðuvatn á heiðinni austan Bárðardals. Það er alldjúpt á köflum og hæð þess yfir sjó er 359 m. Útrennsli þess er Kálfborgará til norðurs í Skjálfandafljót. Jeppum er fært að vatninu, bæði að vestan og austan. Umhverfi þess er hlýlegt, lynggrónir ásar. Talsvert er af fiski í vatninu, bleikja sem getur vegið allt að fjögur pund, þótt mest sé um smærri fisk. Netaveiði hefur lengi verið stunduð í vatninu og fiskurinn unninn í reyk. Talsvert er um ísdorg á vetrum en aftur á móti ekki mikil stangaveiði á sumrin.