Norðurá í Borgarfirði er í hugum margra veiðimanna besta laxveiðiá landsins með um 2000 laxa árlega meðalveiði á síðustu 10 árum. Áin á upptök sín í Holtavörðuvatni um 62 kílómetra frá sjó og telst vatnasvið árinnar vera um 518 km2. Í ánni eru um 170 merktir veiðistaðir og er fjölbreytileiki þeirra mikill, allt frá nettum strengjum upp í stórar og vatnsmiklar breiður. Í Norðurá eru þrír fossar helstir, Laxfoss, Glanni og Króksfoss, hver öðrum fallegri.
Efsti hluti Norðurár, Fjallið, hefur allt til að bera fyrir veiðimenn sem þyrstir í ævintýri í fallegri en um leið ögrandi náttúru. Bæði er hægt að rölta um grónar grundir niðri á flatlendinu og reyna á sig fram til heiða í því dæmigerða landslagi er þar gefur, klungur og klettum. Áin er heillandi þar sem hún streymir fram ýmist lygn eða stríð, og skiptast á strengir og breiður, fossar og flúðir. Veiðivonin er rík, ekki síst er líða fer á sumarið og er haustar skemma ekki hinir fjölbreyttu haustlitir náttúrunnar fyrir.