Laxá á Ásum er án efa ein albesta laxveiðiá landsins. Síðustu áratugina hefur einungis verið veitt á tvær stangir í Laxá en þrátt fyrir það er meðalveiði árinnar um 1.000 laxar á sumri eða um 500 laxar á stöng. Veturinn 2016 var Laxárvatnsvirkjun lögð af en við það lengdist veiðisvæði árinnar um 7 km og er í heild 15 km. Var áin því færð í upprunalegt horf, eins og hún var áður en virkjunin var byggð á fjórða áratug síðustu aldar. Við þessa breytingu fjölgaði stöngum í ánni í fjórar. Veitt er í tvo – þrjá daga í senn.
Laxá á Ásum er mjög fjölbreytt laxveiðiá, með allar útfærslur af veiðistöðum; strengi, lygnur, fossa og flúðir. Hluti af vatnsvæði árinnar er Fremi Laxá og ósasvæði Laxár. Fremri Laxá er seld sér allt tímabilið en ósasvæðið tilheyrir aðalsvæðinu frá opnun og fram til 8. júlí, en eftir það er það svæði selt sér.