Skógá undir Eyjafjöllum er hvortveggja lax- og bleikjuveiðiá. Veiðin, árin á undan gosinu í Eyjafjallajökli, var mjög góð og stundum algjörlega frábær en árin 2010-2012 var áin í lægð. Síðustu árin hefur áin verið að ná sér á strik og veiðin aftur á uppleið.
Lengi hefur rúmlega 30 þús seiðum verið sleppt í ána árlega. Mest var veiðin sumarið 2008 þegar 1.537 laxar og um 500 bleikjur komu á land. Bleikjuveiðin hefur einnig oft verið ævintýraleg í Skógá en mesta veiði var árið 2001 þegar um 2700 silungar veiddust. Menn geta átt von á mörgum stórfisknum í Skógá enda hafa veiðst þar laxar allt að 17 pund og bleikjur allt að 10 pund. Svæðið samanstendur af straumhörðum hyljum, holum, lygnum, breiðum, bakkahyljum og fossum.