Óhætt er að segja að Veiðivötn séu ein rómuðustu, gjöfulustu og frægustu veiðivötn landsins. Um er að ræða vatnaklasa í Landmannaafrétti sem samanstendur af allt að 50 vötnum. Um er að ræða bæði lítil og stór vötn sem eru í um 570 ~ 590 metrum yfir sjávarmáli. Flestir telja Veiðivötn og veiðivatnasvæðið eitt það fallegasta á landinu. Stærstu vötnin eru Litlisjór, Grænavatn, Ónýtavatn og Snjóölduvatn. Litlisjór er langstærstur eða um 9,2 km², Grænavatn 3,3 km² og Snjóölduvatn 1,6 km². Þessi vötn eru ekki gígvötn og urðu til fyrir 1480.
Í Veiðivötnum er mikið af gríðarvænum og öflugum urriða af ísaldarstofni, þ.e. sjóbirtingi sem lokaðist inni við lok síðustu ísaldar. Einnig er mikið af bleikju, bæði lítilli og stórri. Þar sem þetta er eitt vinsælasta og eftirsóttasta veiðisvæði landsins, seljast veiðileyfi yfirleitt upp á skömmum tíma.