99 sentimetra lax í Norðurá

„Veiðin gengur bara vel hjá okkur og núna hafa veiðst 173 laxar það sem af er,“ sagði Brynjar Þór Hreggviðsson við Norðurá í Borgarfirði, þegar við spurðum um stöðuna en 99 sm lax veiddist í ánni fyrir nokkrum dögum.

„Það var erlendur veiðimaður sem veiddi þennan fisk í Kríuhólmi, við fáum alltaf einn og einn svona lax á hverju sumri og jafnvel stærri. Það eru laxar að ganga á hverju flóði núna og veiðimenn ánægðir með ganginn í veiðinni,“ sagði Brynjar við Norðurá.

„Það veiddust 6 laxar fyrir hádegi hjá okkur,“ sagði veiðimaður okkur í Þverá og Kjarrá en þær eru aðeins fyrir neðan Norðurá í laxafjölda.  Næstu daga á að hlýna aðeins enda búið að vera skítakuldi síðustu daga svo það er von á betri tíð.  Tölur eins og 10, 12, 14 og 16 stiga hiti eru í kortunum.

Mynd. Erlendi veiðimaðurinn með 99 sm laxinn úr Norðurá í Borgarfirði.

Veiðar · Lesa meira

Norðurá