Tíu laxar komnir á land í Kjarrá

Laxveiðin er allt í lagi þessa dagana, allt er þetta að byrja og hver veiðiáin af annarri að opna. Laxinn er mættur víða en kannski ekki í miklum mæli ennþá. Einhver sagðist hafa séð nokkra laxa í Laxá í Dölum fyrir skömmu þegar hann skoðaði neðst í ánni. 

„Já fyrstu laxarnir hafa veiðst í Kjarrá, fjórir laxar á fyrsta degi,“ sagði Styrmir E. Ingólfsson, þegar við heyrðum í honum og hann bætti við „í morgun voru komnir 10 laxar í Kjarrá.“ 

Það var Örn Kjartansson sem veiddi fyrsta laxinn í Kjarrá í Efra-Rauðaberg, 92 sentimetra fisk. Alla vega 10 laxar hafa veiðst í Þverá svo árnar hafa gefið samtals 20 laxa. Smálaxinn er að mæta í Þverá sagði Andrés Eyjólfsson leiðsögumaður við ána í samtali við Skessuhorn. 

Laxveiðin togast áfram, Blanda fer rólega af stað, mjög rólega en Norðurá er að gefa laxa og það er stækkandi straumur þessa daga, 20 laxar komnir á land í Norðurá.

Mynd. Fjör á árbakkanum í Kjarrá í Borgarfirði.

Veiðar · Lesa meira

Þverá & Kjarrá