Góð veiði í Vatnsdalsvatni í Vatnsfirði

Það voraði seint á vestanverðu landinu í ár og hitinn var aðeins rétt yfir frostmarki á nóttunni í byrjun júní. Gamlir vinir, feðgar og félagar létu það ekki á sig fá og voru mættir í Vatnsdalsvatn í Vatnsfirði um miðjan mánuðinn og eyddu m.a. 17. júní við vatnið.

Það var norðan strekkingur niður dalinn og það var talsverður hvítfrissandi öldugangur á vatninu megnið af tímanum og kuldi. Mun kaldara en vanalega um miðjan júní enda kaldasti júní síðustu 40 ár en það er um það bil sá árafjöldi sem öldungarnir í hópnum hafa veitt í vatninu. 

Að venju var reynt við silunginn og hann var aðallega að taka maðk og spún en var minna í flugunni, hann var á töluverðu dýpi og smærri fiskurinn ekki farinn að láta sjá sig vegna tíðarfarsins. Bleikjurnar komu ágætlega undan vetri, og voru frá tveimur og upp í fjögur pund.

Það var ágæt veiði og allir fengu eitthvað og fyrsta kvöldið var klukkustunda gamall silungur og nýjar kartöflur með smjöri í matinn að gömlum og góðum sið við vatnið, í góðum félagsskap og tónlistarmaðurinn í veiðiferðinni spilaði 17. júní lög og fleira að loknu borðhaldi.

Myndir: Eyþór Einar Sigurgeirsson og Eggert Sk. Jóhannesson

Vatnið var kaldara en í venjulegu árferði
Stangveiði – Veiðin.is · Lesa meira

Vatnsdalsvatn