Bókin „Ástin á Laxá“ að koma út í vikunni

Útgáfu bókarinnar Ástin á Laxá – Hermóður í Árnesi og átökin miklu verður fagnað í vikunni hjá Sölku.

Hér segi ég söguna af því þegar við Þingeyingar tókum til okkar ráða til verndar náttúrunni og sprengdum stíflu í Laxá með dýnamíti í eigu virkjunarinnar. Sá atburður olli straumhvörfum. Rakin er saga föður míns, Hermóðs í Árnesi, sem var í fylkingarbrjósti í hinni hörðu baráttu. Í bókinni leitast ég við að bregða upp myndum af aðstæðum og fólkinu sem reis upp í að því er virtist vonlausri stöðu en tókst að sigra með samheldni og eldmóð að vopni.

Bókin er gefin út af Bókaútgáfunni Sölku og segir svo í kynningartexta: „Í ágúst 1970 átti sér stað atburður sem vakti athygli alþjóðar og jafnvel út fyrir landsteinana. Þá tóku Þingeyingar til sinna ráða eftir áralanga baráttu gegn fyrirhugaðri stórvirkjun í Laxá með tilheyrandi vatnaflutningum og sprengdu stíflu sem virkjunaraðilar höfðu reist í Miðkvísl og notuðu til þess dýnamít í eigu virkjunarinnar. Verknaðurinn olli straumhvörfum í deilunni og er sagan rakin á síðum þessarar bókar. Megináhersla er lögð á aðkomu Hermóðs Guðmundssonar í Árnesi og hans þátt í baráttunni miklu fyrir verndun Laxár og Mývatns þar sem hann var í fylkingarbrjósti. Hermóður fór gjarnan ótroðnar slóðir og lét sig ótalmörg málefni varða. Einkum mál sem vörðuðu framfarir, hag íslenskra bænda, náttúruvernd og raunar hvers kyns samfélagsmál. Hann var uppi á tímum mikilla þjóðfélagsbreytinga, upprunninn í hinu rótgróna íslenska bændasamfélagi sem hann tók af fullum krafti þátt í að umbylta að hætti nútímans.

Hildur Hermóðsdóttir segir sögu fjölskyldu sinnar og sveitunga á ljóslifandi hátt. Hún fangar ástina á náttúrunni og bregður upp myndum af fólkinu sem verndaði hana með samheldni og eldmóð að vopni.“ 

Veiðar · Lesa meira

Fallegt við Laxá í Aðaldal við Æðarfossa. /Mynd María Gunnarsdóttir

Laxá í Aðaldal