Gíslastaðir; 6 laxar teknir á flugu og einn á spón

„Zelda nr. 6 var að gefa flesta fiskana eða 4 stk og tveir komu á Kröfluna og einn á spóninn eins og áður sagði,“ sagði Kjartan Antonsson og bætti við; „hnýtti nokkrar Zeldur sérstaklega fyrir þessa ferð og prófaði 5 útgáfur af þeim en þessar tvær voru í aðalhlutverki og tóku sitthvora tvo laxana og eiga nóg eftir þrátt fyrir mikil slagsmál við bolta laxa. Við hjónin vorum við veiðar í 3.daga ásamt Hjalta Þór Þorkelssyni og feðgunum Braga Má og Eið Bragasyni.
Gíslastaðir er magnað svæði þar sem landslagið er mikilfenglegt og alger friður ríkir. Við förum á Gíslastaði til að njóta kyrrðar, friðar og að sjálfsögðu veiða. Gíslastaðir eru kannski ekki alveg allra sem veiðisvæði en þeir sem ná svæðinu koma aftur og aftur. Það getur tekið tíma að læra á svæðið, nokkrar ferðir en það er svo sannarlega þess virði. Gaman að segja frá því að fyrir þessa ferð gaf ég Grétu nýja flugustöng Guideline Elevation fyrir línu 8 ásamt bleiku Alfa Arctic hjóli og 
línu, alveg frábært combo. Þegar kom svo að því að Grétan myndi vígja stöngina heimtaði hún að ég myndi taka fyrstu köstin, það myndi boða lukku fyrir stöngina. Átta mig reyndar ekki á því af hverju hún hélt því fram og ég reyndi að mótmæla. Einnig grínaðist ég með það að ég gæti ekki látið það spyrjast út að ég væri að kasta flugu með bleiku hjóli. Hvað um það, ég lét undan og tók út línu og byrja að kasta. Það ótrúlega gerðist, ég var enn að lengja í og var aðeins í öðru kasti með stönginni þegar stór lax neglir Zelduna. Það sem er enn skemmtilegra er að þetta er allt til á videoi. Um leið og laxinn hafði tekið tók ég ekki annað í mál en að Grétan tæki við. Þá værum við að vígja stöngina í sameiningu, betra gæti það ekki orðið.

Það varð úr og eftir mikla baráttu landaði Grétan fallegum laxi sem var 87 sm og til að gera þetta enn meira spennandi sagði ég henni að hún skildi sjá sjálf um löndunina frá A-Ö til að gera þetta enn meira spennandi og er það hin mesta skemmtun á að horfa.
Ég var svo að kasta seinna og set í fallegan fisk. Rétt á eftir kemur Eiður til okkar en hann var að freista þess að ná í maríulaxinn sinn í þessari ferð. Ég bauð honum að taka við stönginni og þreyta laxinn. Það væri fín æfing fyrir hann svo hann myndi vita hverju hann ætti von á þegar hann setti í sinn fyrsta lax. Eiður þreytti laxinn með fumlausum vinnubrögðum sem tók langan tíma að landa enda fallegur fiskur sem hvergi vildi gefa eftir. Einn af betri veiðitúrum sem við höfum farið í sem verður klárlega endurtekin,“ sagði Kjartan að lokum.

Látum hér nokkrar myndir fylgja.

Veiðar · Lesa meira

Hvítá – Gíslastaðir