,,Pabbi ég fæ engan fisk upp í húsi“

Veidin.is hafði spurnir að því að Kjartan Antonsson væri við veiðar á Gíslastöðum í Hvítá. Við höfðum samband við hann og spurðum hann frétta hvernig gengi.

,,Já við erum hér við veiðar um helgina hjónin ásamt góðu vinafólki okkar og dætrum þeirra. Það er bara búið að ganga vel. Sjálfur fékk ég fimm flotta laxa, sá stærsti var sléttir 90 cm.

Alla tók ég þá á Zeldu #6 en ég sér hnýti alltaf stórar Zeldur fyrir þessa ferð þar sem Hvítáin er jú jökulvatn.  Nú gerði ég 10 stk. en merkilegt nokk, þá prófaði ég bara þrjár af þeim. Reyndar prófaði ég fjórar en það er ekki að marka eina af þeim þar sem hún var undir í bara nokkur köst. Fékk laxa á allar hinar þrjár.

Skemmtilega er að í nokkur ár hef ég talað um það að gera Zeldu með væng úr fjöðrum af Ensk Setter tík sem við eigum og heitir Fönn. Til að gera  langa sögu stutta þá loksins lét ég verða af  því fyrir þessa ferð. Ég byrjaði á henni og þegar ég hafði tekið þrjá laxa á þá flugu, þá hætti ég að nota hana til að prófa aðra týpu af Zeldu.

Við köllum þá Zeldu svona okkar á milli hér heima, Funray shadow Zeldu. En hápunktur ferðarinnar var klárlega  þegar 10 ára frænka mín Ástdís Ósk Óttósdóttir fékk maríulaxinn sinn. Rétt áður en hún setti í hann þá var hún orðin blaut í fæturnar og Ottó faðir hennar spurði hana hvort hún vildi þá ekki fara upp í hús og hlýja sér. Hún var ekki lengi að svara, pabbi ég fæ engan fisk upp í húsi.

Skömmu seinna setti hún í fallegan 65 cm. hæng á Toby spún og voru öll hennar handbrögð við glímuna við laxinn fumlaus. Og að sjálfsögðu beit hún uggan af og ekki nóg með það heldur tuggði hún hann vel og lengi áður en hún kyngdi honum. Hún sagði að hún hefði þurft að gera það því hann hefði verið of stór til að gleypa hann.

Í boxinu má sjá þær tíu Zeldur sem Kjartan sérhnýtti fyrir þessa ferð. Fannar Zeldan er lengst til vinstri uppi.

Hægt er að sjá fleiri myndir og video á facebook síðunni Zeldan.

Ljósmynd/Kjartan Antonsson

Stangveiði – Veiðin.is · Lesa meira

Hvítá – Gíslastaðir