Sá stóri slapp í Elliðaánum

Veiðin.is náði tali af Hafsteini Má Sigurðssyni sem var við veiðar í Elliðaám fyrir fáum dögum og sagði mikinn fisk vera á flestum veiðistöðum. „Við byrjuðum á efsta svæðinu og sáum talsvert líf en fengum ekkert. Næst áttum við neðsta svæðið og óhætt er að segja að það sé fiskur í bunkum í Árbæjarhyl og Hundasteinum.

Við byrjuðum að hitcha Árbæjarhyl því við vissum að veiðimennirnir á undan okkur höfðu varið drjúgum tíma í Hundasteinum. Við uppskárum miklar ólgur en enga töku. Þá töldum við Hundasteina sæmilega hvílda og héldum þangað. Þó nokkrar flugur fóru undir en allt kom fyrir ekki. Þá prófuðum við að veiða staðinn andstreymis og í öðru kasti bar það árangur. Falleg 60 cm hrygna á land.

Næsta stopp var Hraunið, einn af mínum eftirlætis stöðum í ánni. Þegar þangað var komið þurfti makkerinn að skreppa frá en á meðan setti ég í fisk sem ég er viss um að hafi verið með þeim stærstu í ánni. Hann tók góða roku og lagðist svo og var ekki haggað. Ég prófaði að taka aðeins á honum með mjög litlum árangri. Áður en ég kastaði út man ég að hafa hugsað til þess að ráðlegt væri að skipta um taum…og það hefði ég betur gert því auðvitað sleit skrímslið að lokum.

Pínulítið bugaður endurheimti ég makkerinn sem var fullviss um að sá stóri væri bara lygasaga. Ég setti á nýjan taum, hristi úr mér bugunina og kastaði upp ánna. Í þriðja kasti var allt í keng. Stór fiskur, stærri lax en ég hef sett í þetta sumarið. Hjartað barðist um og fyrsta hugsun var að missa hann ekki niður fyrir brotið. Ég missti hann niður fyrir brotið. Blessunarlega er makkerinn minn afar fótfrár og tilbúinn að fórna sér fyrir málstaðinn.

Rétt áður en laxinn slapp niður fossinn kastaði hann sér út í og sporðtók fiskinn sem reyndist búsældarleg 81 cm hrygna. Blautur makker, glaður veiðimaður og spræk hrygna sem synti aftur út í hylinn sinn með næga krafta eftir. Þar næst fórum við í lygnuna í Kistunum og Grófarkvörn. Þar kraumaði allt en við fengum engan lax þótt aðrir íbúar ánnar hafi viljað við okkur tala. Frábærir klukkutímar í smekkfullriá.“

Ljósmynd/Hafsteinn Már Sigurðsson

Stangveiði – Veiðin.is · Lesa meira

Elliðaár