Vonin í Mýrarkvísl

„Þetta voru var eiginlega sturlaðir dagar í Mýrarkvíslinni,“ sagði Hafsteinn Már Sigurðsson þegar Veiðar.is náðu í hann.

„Við vorum þarna átta góðir vinir saman komnir og vorum öll að fara í fyrsta skipti í laxveiði í kvíslina. Helmingurinn af hópnum fór þarna í vor í urriðann og líkaði svona líka vel við ána að við ákváðum að safna saman góðu stemnings- og veiðifólki og koma aftur.“

„Skemmst er frá því að segja að við urðum strax öll yfir okkur hrifin enda tók áin okkur opnum örmum, fjörið var mikið og við lönduðum einum laxi og misstum einhverja á fyrstu vaktinni. Í hollinu í heild komu ellefu laxar á land og við settum í og misstum nærri því jafn marga. Einnig kom talsvert af vænum urriðum á land.“ 

Anna Lea með hrygnu
Haffi með nýgenginn lax

„Laxarnir voru flestir frá 60 cm upp í 80 cm,“ sagði Hafsteinn ennþá í sæluvímu. „Veðrið lék við okkur og laxarnir veiddust um alla á, frá næstneðsta veiðistaðar til nærri þess efsta,“ segir Hafsteinn og bætir við að veiðimenn hafi séð væna laxa á mörgum stöðum. „Það var mikið af stórlaxi, milli 80-90 cm á mörgum stöðum. Eins og svo oft áður í þessari yndislegu veiði gerast svo ævintýralegir hlutir.

Á síðustu vaktinni ákveðum ég og konan mín, Anna Lea Friðriksdóttir, að veiða vaktina nokkuð skipulega. Við ætluðum að skanna veiðistað 2 og 2,5 snögglega og fara svo á nokkra aðra staði og enda aftur á veiðistað 2, sem geymdi greinilega talsvert af laxi.

Við komumst þó ekki úr þeim hyl því ég byrjaði á því að landa fallegum nýlega gengnum 60 cm laxi og við tókum smá pásu og fögnuðum. Þá sagði Anna Lea við mig að það væri alveg von á öðrum fiski í þessum stað. Hún ætlaði þess vegna að skipta um flugu og setti Vonina undir. Þrjú köst og svo kom þung taka. Það var ljóst að hér var ekki smálax á ferð heldur vænn fiskur. Við áttuðum okkur samt ekki alveg á hversu vænn hann var fyrst um sinn en það fór aðeins um veiðikonuna þegar laxinn stökk allur upp úr. Þetta var risi. Og í höndunum fast action G. Loomis fimma með hjóli sem var aðeins ótraust. Taugarnar voru þandar. Til allrar hamingju var hylurinn nokkuð þægilegur og lygn og veiðikonan hafði undirtökin allan tímann. Eftir um fimmtán mínútna baráttu og talsverðan hjartslátt hjá háfaranum kom fiskurinn á land þrátt fyrir að hann ætti helling inni ennþá. Gleðin var í hámarki og Anna Lea mældi fiskinn 92 cm áður en hún sleppti honum út í hylinn sinn aftur. Fagnaðarlætin voru talsverð á bakkanum og ákveðið var að Mýrarkvíslin yrði heimsótt árlega héðan í frá. Þvílík á og þvílík skemmtun,“ sagði Hafsteinn að lokum.

Mynd: Anna Lea með hænginn sem kom á Vonina

Veiðar · Lesa meira

Mýrarkvísl