Elliðavatn er í Heiðmörk sem er útivistarsvæði í útjaðri Reykjavíkur og Kópavogs. Vatnið tilheyrir bæði Reykjavík og Kópavogi. Hægt er að komast að vatninu með því að fara Heiðmerkurafleggjara og í gegnum Kópavog til að komast að Vatnsendalandi.
Elliðavatn er vinsælasta veiðivatn höfuðborgarsvæðisins og afar gjöfult. Vatnið er í um 73m. hæð yfir sjávarmáli og er um 1,8 km² að flatarmáli. Mesta dýpi er rúmir 2 m en meðaldýpi er um 1 m. Í vatnið renna Bugða og Suðurá. Í vatninu eru bleikja, urriði, lax og stöku sjóbirtingur. Bleikjan var ríkjandi í vatninu en síðasta áratug hefur urriðinn sótt í sig veðrið og er nú að verða algengasta fiskitegundin í vatninu. Lax og sjóbirtingur ganga í vatnið úr Elliðaám og upp í hliðarárnar. Urriðinn í vatninu hefur verið að stækka og hafa fiskar upp í sex pund veiðst.