Leirá í Leirársveit er mjög skemmtileg sjóbirtings og laxveiðiá og er alveg kjörin fyrir vini og litlar fjölskyldur sem vilja hafa það náðugt. Áin er frekar viðkvæm veiðiá og er mikilvægt að fara varlega um bakka hennar til að ná góðum árangri. Í Leirá eru um 24 merktir veiðistaðir sem ágæt aðkoma er að, sérstaklega í neðri hluta árinnar. Allt að 60 laxar veiðast í ánni á ári sem telst allgott miðað við stærð. Auk góðrar sjóbirtingsveiði á vorin veiðist oft bleikja í ósnum í maí og júní.
Víða fín veiði í sæmilegu veðri
„Við fórum þrír vinir saman í Leirá í fyrradag og urðum alls ekki fyrir vonbrigðum,“ sagði Árni Kristinn Skúlason sem hefur veitt á nokkrum stöðum síðan vorveiðin hófst fyrir alvöru.