Miðfjarðará verður til við sameiningu Núpsár, Austurár, og Vesturár, en Miðfjarðaráin sjálf er hinsvegar einungis um 13 km löng. Efstu upptök ánna þriggja liggja uppá á heiðunum suður af Miðfjarðardölum, í Kvíslarvötnum á Núpsheiði, Arnarvatni stóra, og Tvídægru.
Miðfjarðará þykir afskaplega falleg á og eru margir sem kalla hana drottningu laxveiðiáa, en hún þykir vera ein besta og um leið ein dýrasta laxveiðiá landsins. Megnið af laxinum sem veiðist í Miðfjarðará er um 5 ~ 9 pund að stærð en laxar allt að 20 pund veiðast þar einnig ár hvert. Árið 2015 var alger metveiði í henni, eða 6028 veiddir laxar. Áin státar af mjög góðri meðalveiði, eða 3584 löxum síðustu 10 árin. Ávallt er veitt í 2-3 daga í senn, frá hádegi til hádegis.