Laxapar

Langadalsá umsetin af eldislaxi – leigutakar kalla eftir ákæru á Arctic Fisk

„Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að þúsundir eldislaxa sluppu nýverið úr netpokum Arctic Fish í Patreksfirði. Þessir laxar synda nú upp ár landsins og hafa á annað hundrað þeirra veiðst á stöng,“ sagði Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson í samtali.

Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson

„Talsmenn sjókvíaeldis fyrirtækjanna og SFS hafa undanfarið reynt að afvegaleiða umræðuna, draga úr hættunni sem þessi slepping skapar og lofað því að hreinsa upp eftir sig skítinn. Þessir sömu aðilar töluðu alltaf um að eldislaxinn myndi ekkert sleppa. Þegar það svo gerðist var sagt að þeir myndu allir halda sig nærri kvíunum, væru að langstærstum hluta ófrjóir og að hættan á erfðablöndun væri lítil sem engin. Nú hefur þetta þó allt verið staðfest og í ljós komið að þessir aðilar hafa rangt fyrir sér um flest allt!  Ég er í dag staddur í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi á veiðum og er áin því miður umsetin eldislaxi. Ég tók myndina hér að neðan í gær og staðfestir hún það sem ítrekað hefur verið bent á að myndi gerast; villtur laxahængur hefur parað sig við eldislaxahrygnu. Þetta er ná­kvæm­lega það sem menn hafa ótt­ast, erfðablönd­un,“ segir Elías enn fremur.

Hver leigutakinn á fætur öðrum stígur nú fram og kalla eftir ákæru á forráðamenn  Arctic Fish, löxunum fjölgar í ánum og erfitt verður að afstýra slysinu. Náttúrulegu laxastofnarnir eru í bullandi hættu í fjölda laxveiðiáa. 

Allt að gerast í Langadalsá, laxaparið í Grundarfljóti í Langadalsá Mynd/Elías Pétur

Veiðar · Lesa meira

Flottur úr Laxá

Einn af glæstari sonum Laxár í Aðaldal

September er kókódílatími í laxveiðinni. Stóru hængarnir eru farnir að verja svæðið sitt og taka þá gjarnan frekar flugur veiðimanna. Einn af glæstari sonum Laxár í Aðaldal fékk mælingu nú seinni partinn. Hann tók flottúpuna Valbein hjá Sindra Rósenkranz í Brúarhyl.

Sindri Rósenkranz er þarna með stærsta lax sem hann hefur veitt til þessa. Ljósmynd/Arnar Rósenkranz

mbl.is – Veiði · Lesa meira

Þetta var bara geggjað

Þetta var bara geggjað

„Við vorum að koma úr Þverá í Fljótshlíð og það var bara geggjað, flott veiðiá,“ sagði Jógvan Hansen í samtali nýkominn af veiðislóðum og bætti við; „það fengu allir fiska sem er gott. Það veiddust 7 laxar, urriðar og sjóbirtingar og það var verið að taka fiskana á tveimur stöðum, númer 50 og 48. Aldrei veitt þarna áður og þetta var skemmtilegt, ótrúlega fallegt þarna í kringum ána, sá jökul, beljur, golfvöll og ána allt í sömu myndinni. Hylur 48 var bestur við neðri brú, töluvert af fiski þar,“ sagði Jógvan og segist ætla að renna aftur fyrir fisk þarna.

Ljósmynd: Jógvan Hansen með flottan lax úr Þverá í Fljótshlíð

Veiðar · Lesa meira

Hrútan

Boltafiskur úr Hrútafjarðará

„Það jókst einungis lítillega vatnið í Hrútafjarðará en nóg til að sett var í sex laxa í morgun og tveim landað,“ sagði Þröstur Elliðason hjá Veiðiþjónustunni Strengjum og bætti við; „nokkuð líflegt sögðu veiðimenn á morgunvaktinni. Og í gær komu tveir laxar á land úr Maríubakka og þar af var annar 93 cm (sjá mynd) sem er þá sá stærsti í sumar. Bleikjuveiðin hefur verið betri en undanfarinn ár og nokkuð vænar líka.  Lítil ástundun hefur verið í hliðarár Jöklu og nánast ekkert vatn er í Laxá og Fögruhlíðará! Kaldá heldur vatni betur og sá sem veiddi þar síðast fyrir helgi fékk 80 cm hrygnu ofarlega í Kaldá í Lundahólum. Góð bleikjuveiði hefur aftur á móti verið í ósunum í ágúst. Vonandi fer að rigna fyrir austan því töluverður lax virðist einnig vera að bíða í ármótum við jökulvatnið í Jöklu og hliðarám,“ sagði Þröstur enn fremur.

Ljósmynd/ frá Hrútafjarðará

Veiðar · Lesa meira

Sportveiði

Haustblað Sportveiðiblaðsins er komið út!

Nýtt tölublað Sportveiðiblaðsins var að koma út og ætti að vera á leið til áskrifenda sem og á alla helstu sölustaði.

Í blaðinu má finna flott viðtal við Guðrúnu Hildi Jóhannsdóttur laxveiðikonu og Matthías Þór Hákonarson leigutaka Mýrarkvíslar. Gunnar Helgason leikari með flott efni og veiðistaðalýsingar fá sinn sess en veiðistaðir í Andakílsá eru teknir fyrir í þessu tölublaði.

Hvað er betra en að grípa Sportveiðiblaðið og lesa meðan beðið er eftir rigningunni!

Takk fyrir sumarið og megi haustið koma fagnandi!

Veiðar · Lesa meira

Maríulax Þjórsá

Flott veiði í Þjórsá, maríulax á fluguna

„Já veiðin gekk vel hjá okkur í Þjórsá og við fengum flotta veiði, Ernir Rafn Eggertsson náði í maríulaxinn sinn á flugu sem var skemmtilegt,“ sagði Jón Ingi Grimsson, þegar við spurðum um veiðitúrinn í Þjórsá, sem gekk feiknavel.

„Ernir Rafn veiddi maríulaxinn á flugu, litla rauðan frances og var fiskurinn 77 sentimetra. Hann var heldur betur ánægður með fiskinn, var að prófa fluguna í fyrsta sinn,“ sagði Jón Ingi enn fremur.

Flott veiði

Urriðafoss í Þjórsá hefur gefið yfir 600 laxa en veiðitölur vikunnar eru á leiðinni í nótt og verður fróðlegt að sjá niðurstöður eftir enn eina þurrkavikuna. Lítið ætlar að fara að rigna þessa dagana. 

Ljósmynd/Ernir Rafn Eggertsson með maríulaxinn sinn

Veiðar · Lesa meira