Brynjar Hregg

Við erum ánægðir með vatnsbúskapinn

„Ég tel að við fáum gott veiðisumar,“ sagði Brynjar Þór Hreggviðsson, annar af sölustjórum Norðurár í Borgarfirði, þegar við spurðum um stöðuna fyrir sumarið núna þegar rétt mánuður er þar til áin opnar fyrir veiðimenn.

„Þótt það hafi snjóað seint í fjöllin þá slapp það til miðað við þá bændur sem hafa verið að skoða aðstæður á Holtavörðuheiðinni og maður hefur rætt við. Það vatn ætti að skila sér vel í árnar í júlí. Þannig að við erum ánægðir með vatnsbúskapinn. Varðandi veiðina, þá eru ótal margir þættir sem koma þar inní svo að góð veiði rætist. Ef við tölum um hvaða árgangar ættu að vera í Norðurá þetta árið þá eru það laxaárið 2015 með 2886 laxa, árið 2016 með 1342 laxa og árið 2017 með 1719 laxa. Þetta er alls ekki slæm staða sem þessir 5 – 7 ára árgangar ættu að vera skila inn í ár.  Það kannski gefur manni vísbendingar frekar um einhverja fylgni hvort það verði góð veiði eður ei. Mikið af smálaxahængum í ánum síðastliðið sumar var talin vísbending um tveggja ára lax. Ég veit að menn eru bjartsýnir á vestur- og norðvesturlandinu. Norðurá stóð sig vel í fyrra og má ekki gleyma því að hún var fjórða aflahæsta á landsins með hafbeitum meðtöldum, með um 1430 laxa. Við viljum sjá hana í 2000 löxum og ég er alveg bjartsýnn að við verðum nálægt þeirri tölu í ár. Ég er mjög spenntur fyrir komandi veiðisumri og er ánægður með stöðuna, “ sagði Brynjar ennfremur.

Mynd/ Brynjar Þór Hreggviðsson 

Veiðar · Lesa meira

Reynir námskeið

Flugukastsnámskeið að hefjast

Nú fer grilltíminn að byrja þegar sumarið er gengið í garð og enn einn vorboðinn, flugukastsnámskeiðin, boða komu sína. Þar geta veiðimenn bætt sig í færninni að koma flugunni á réttan stað og þannig stóraukið árangurinn í eltingaleik við lónbúann. Leiðsögumaðurinn og kastkennarinn Reynir Friðriksson býður nú eins og undanfarin ár uppá námskeið bæði á einhendur og tvíhendur og eru fyrstu námskeiðin á Selfossi 2. til 4. maí nk. Námskeiðin verða fyrir byrjendur og lengra komna og óhætt að segja að nú sé gott að dusta vetrarrykið af veiðigræjunum og byrja að koma sér í gott form fyrir sumarveiðitímann sem er rétt handan við hornið.

Í samtali við Reyni upplýsti hann að námskeiðin á Selfossi væru byrjun á röð námskeiða en mikil eftirspurn væri eftir þeim og vonaðist hann til að geta haldið þau á fleiri stöðum eins og Suðurnesjunum og Reykjavík. Bætti hann því við að veiðimenn og konur áttuðu sig á því hversu miklu máli það skipti að ná góðum tökum á flugukasttækninni, það kæmi strax fram í aflabrögðum. 

Ljósmynd/Reynir Friðriksson

Veiðar · Lesa meira

Hringbraut

Hafa fengið frábær viðbrögð

„Við ætlum að sýna síðasta veiðiþáttinn á Hringbraut á laugardaginn kemur en þá eru komnir 6 þættir frá því í mars,“ sagði Gunnar Bender sem var við tökur á síðasta veiðiþættinum í þessari vinsælu veiðiþáttaröð. Gunnar var að spjalla við strákana á Þrír á stöng og gekk á ýmsu. „Við erum búnir að fara víða um í þáttunum til að mynda í Norðurá, Miðá, Gljúfurá, Þjórsá, Þingvallavatn og Leirvogsá svo einhverjir staðir séu nefndir. Tökur sem fram fóru á síðasta sumri og nú í vor gengu mjög vel og viðbrögðin við fyrstu þáttunum með eindæmum góð enda mikill áhugi hjá landanum á stangveiði almennt. Veiðiþættir af þessari gerð fyrir sjónvarp eru því miður af skornum skammti og flestir hafa gefist upp á framleiðslu þeirra og sýningu“. Hvort framhald verði á þáttagerð hjá Gunnari Bender svaraði hann „við verðum að sjá til með framhaldið en veiðiþættir eru orðnir alltof sjaldséðir í sjónvarpi og þeim fækkað með árunum, þættir eins og Sporðaköst Eggerts Skúlasonar hafa hætt og fleiri góðir veiðiþættir. En það styttist í meiri veiði hjá veiðimönnum, allt að komast á fleygiferð og aldrei að vita um framhald hjá mér og frekari þáttagerð“, sagði Gunnar veiðiþáttaframleiðandi og sportveiðari að lokum.

Mynd. Þrír á stöng, Hafsteinn, Árni og Jón eftir vinnslu á veiðiþáttum með Gunnari

Veiðar · Lesa meira

Afmæli Strengur

Veiðimenn fögnuðu stórafmælinu

„Þetta voru flott veisluhöld hjá Þresti og hann hefur staðið sig vel í gegnum árin í veiðinni,“ sagði Össur Skarphéðinsson í 60 ára afmæli veiðimannsins Þrastar Elliðasonar en hann hélt nýlega uppá tímamótin um leið og minnst var 30 ára afmælis Strengja, veiðiþjónustunnar sem Þröstur á og rekur. Undir það tók veislustjórinn Einar Bárðarson; „virkilega skemmtileg samkoma og glæsileg.“

Fjölmenni var í afmælisveislunni, margir veiðimenn mættu og aðrir velunnarar Þrastar og vinir. Boðið var upp á veitingar og fjölbreytt skemmtiatriði, m.a. ýmis söngatriði sem þóttu verulega vel heppnuð. 

Og hérna fylgja nokkrar myndir úr veislunni.

Veiðar · Lesa meira