SVAK

Á ferðinni á bökkum Svarfaðardalsár

Þeim sem þykir fátt skemmtilegra en að veiða sjóbleikju sækja oft Eyjafjörðinn heim en um hann renna allmargar góðar sjóbleikjuár. Dugar þar að nefna Eyjafjarðará, Fjarðará (Ólafsfjarðará), Hörgá og Svarfaðardalsá. Eyjafjarðará var sú þeirra sem fékk lengi mesta athygli, en nú hefur dregið úr veiði vegna ástands sjóbleikjustofnsins og í raun í öllum ánum. Nú er sóknin í Eyjafjarðará nánast eingöngu bundin við eitt svæði, það fimmta. Aftur á móti, hefur sjóbleikja í Fjarðará, Hörgá og Svarfaðardalsá verið að fást víða í ánum. Sú staðreynd og hærri dagskvóti eykur þar sóknina. Þetta sumar hafa veðurfarslegar aðstæður gert það að verkum að Hörgá og Svarfaðardalsá, sem eiga það til að jökullitast, hafa verið veiðilegar dag eftir dag.   

Sú á sem gefið hefur mesta sumarveiði hingað til, miðað við skráningu, er Svarfaðardalsá. Hún er dragá, frekar köld og oft jökullituð á sumrin. Veiðisvæðið er um 35 km langt, skipt í 5 svæði og eru tvær stangir leyfðar á hverju þeirra. Sjóbleikjugöngur ná oftast hámarki í lok júlí og fyrstu tvær vikurnar af ágúst. Það getur svo sannarlega verið skemmtilegt að ganga um bakka Svarfaðardalsár eins og samantektin hér að neðan greinir frá. 

“Átti heilan dag í Svarfaðardalsá þann 9. ágúst, 3 og 5 svæði um morguninn og svo svæði 5 seinni partinn. Var mættur rétt eftir 7:00 og hóf veiðar ofarlega á svæði 5, neðan við bæina Göngustaði og Göngustaðakot. Þar rennur áin í kvíslum, veiðistaðirnir eru litlir og viðkvæmir sem gerir þetta allt svo heillandi. Tókst að setja í 5 fiska og náði 4 á land. Það kom nokkuð á óvart að einn þeirra reyndist sjóbirtingur sem veiðist sjaldan svona ofarlega í ánni. 

Frá efri hluta 5 svæðis lá leiðin svo alla leið niður á neðri hluta svæðis 3. Neðan við bæinn Grund eru nokkrir fínir staðir þar sem oft má finna göngufisk en nú var raunin önnur. Færði mig því ofar og byrjaði á því að kíkja á breiðu neðan við golfvöllinn. Varð ekki var þar en fékk svo tvær nokkuð ofar á fallegum veiðistöðum milli golfvallarins og bóndabæinn Bakka. Þar sem það var frekar lítið líf á neðri hluta svæðis 3 var best að halda ofar á staði ofan við Bakka og upp að mótum Svarfaðardalsár og Skíðadalsár. Best er að nálgast þá staði með því að fylgja vegi niður Tungurnar og leggja bíl sínum rétt ofan við ármótin. Þaðan er stutt vegalengd niður á efri hluta svæðis 3 þar sem finna má marga fína veiðistaði. Þarna gerast oft ævintýri og á leið minni náði ég 5 sjóbleikjum og var ein þeirra 55 cm.  

Á seinni vaktinni hófst veiðin neðan við Höfða, félagsheimili þeirra Svarfdælinga sem stendur við ána um mitt 5 svæði. Þaðan var ákveðið að fara í gönguferð niður með ánni og veiða alla þá staði sem á leið minni yrðu. Lítið var um fisk fyrr en komið var á veiðistaði neðan við Mela og að Hreiðarstöðum. Á þeim kafla náðust 6 fiskar, 5 bleikjur og einn urriði. Oft er það nú þannig að maður missir þá stærstu og það átti svo sannarlega við þarna. Stór bleikja sem lét ekki af stjórn og sleit hjá mér. En svakalega var þetta nú gaman. Nú var smá tími aflögu til að skoða staði rétt fyrir neðan brú en hafði ekki árangur sem erfiði”                

Að mestu var fiskurinn að taka kúlupúpur, helst PT afbrigði, Copper John, Rainbow Warrior og San Juan blóðorma. Einnig fengust nokkrar á hina öflugu Stirðu og var sú rauða sterkust. Allar þessar flugur fást hér á Veiðiheimum. 

Veiðileyfi í Svarfaðardalsá: veiditorg.is

Ljósmyndir/Veiðiheimar Kort/veiditorg.is

Heimild: Högni Harðarson

Einarsson

Einarsson verður hluti af Nám vörulínu

Nám Products hefur keypt vörumerki Einarsson Fly Fishing og munu hér eftir sjá um sölu og dreifingu á Einarsson fluguveiðihjólunum um allan heim. Af þessu tilefni skrifaði Steingrímur Einarsson upphafsmaður Einarsson hjólanna yfirlýsingu á Facebooksíðu sína.

Steingrímur stofnaði fyrirtæki utan um draum sinn, að smíða fluguveiðihjól. Einarsson hjólin eru nú orðin hluti af alþjóðlegri vörulínu. Ljósmynd/Golli

mbl.is – Veiði · Lesa meira

Uppstoppun

Með sama laxinn í 600 klukkustundir

Vagn Ingólfsson handverksmaður ákvað að skera út stórlax eins og þeir gerast flottastir á Íslandi. Eftir hátt í sex hundruð vinnustundir er verkið tilbúið af hálfu listamannsins en eftir er að sprauta fiskinn og verður það gert í Bandaríkjunum síðar í sumar.

Svona byrjaði þetta allt saman, með mynd og búið að saga út útlínur. Ljósmynd/Vagn Ingólfsson

mbl.is – Veiði · Lesa meira

Hnausþykkt Sportveiðiblað var að koma út!

Hnausþykkt Sportveiðiblað var að koma út!

„Þetta er glæsilegt blað,“ sagði Þorsteinn Bachmann leikari, þegar Gunnar Bender ritstjóri Sportveiðiblaðsins afhenti honum fyrsta eintakið af blaðinu, nýkomið úr prentvélinni. 

Forsíða 1. tbl 2023

Um er að ræða þykkt sumarblað sem inniheldur m.a. viðtöl við Þorstein Bachmann, stórleikara og Önnu Margréti Kristinsdóttur veiðikempu, ferðasögur til Rió Grande og Slóveníu, veiðistaðalýsingar um Skógá og Ytri-Rangá og ítarleg lýsing frá Hítará, skotveiðigrein um minkaveiðar og umfjöllun um veiðar af kayak. Margt fleira er í þessu fyrsta tölublaði ársins en blaðið fer í dreifingu næstu daga til áskrifenda og á sölustaði.

Þorsteinn Bachmann og Gunnar ritstjóri

Veiðar · Lesa meira

Copper John green

Flugur á Veiðiheimum

Nú styttist í það að í boði verða bæði kúlupúpur og þurrflugur á Veiðiheimum. Hér er um sérvaldar gæðaflugur að ræða, hnýttar af sérfræðingum í Bandaríkjunum. Hugmyndin er að bjóða upp á nokkrar klassískar gerðir sem eru sívinsælar og veiðnar, en þó einnig óhefðbundin afbrigði. Hér að neðan má finna lýsingu á nokkrum þeirra. Vonandi eiga sem flestir eftir að njóta góðs af.

Pheasant Tail: Er sennilega ein mest notaða púpa á Íslandi og jafnframt sú veiðnasta. Verður til í nokkrum afbrigðum og stærðum, sumar þyngdar ef veiða þarf djúpt. Pheasant tail virkar vel á allar tegundir ferskvatnsfiska og hefur notkun hennar aukist undanfarið í laxveiði. Þó er hún ávallt mest notuð í silungsveiði.

Copper John: Vinsæl og mikið notuð fluga í silungveiði. Upphaflega hönnuð og hnýtt af John Barr og líkist einna helst steinflugu, þó þær séu ekki algengar á Íslandi. Þó hafa margir íslenskir veiðimenn trölla trú á flugunni og telja hana virka vel þar sem skötuorm er að finna. Hún hefur þann eiginleika að vera nokkuð þung, enda búkur hennar gerður úr koparvír. Því sekkur hún vel til fisksins og virkar vel með annarri flugu í svokölluðu “dropper setup”.

Lightning Bug: Hér er fluga sem allir silungsveiðimenn ættu að hafa í boxunum sínum. Hefur verið að ryðja sér til rúms hérlendis og er mjög vinsæl víða erlendis. Hönnuð af Larry Graham frá Kirkland í Washington fylki, Bandaríkjunum. Talin vera einna besta flugan þar í landi til að vekja á sér athygli vanlátra urriða. Gott er að eiga sem flest afbrigði hennar í boxinu!

Rainbow Warrior: Þessi fluga er lítið þekkt hérlendis en hefur reynst gífurlega vel í silungsveiði í Bandarikjunum. Hönnuðurinn á bak við hana er Lance Egan frá Salt Lake borg í Utah. Ekki var það ætlun hans að líkja eftir neinu sérstöku en svo vel vill til að fiskur virðist tengja hana fyrir ýmiss fæðuform. Ekki höfum við veiðimenn áhyggjur af því.

Ants: Frábærar í alla staði. Silungur getur orðið svo æstur í flugur í fljúgandi mauramynstri að hann tekur ekki neitt annað um tíma. Vængurinn gefur flugunni nægilegt flot til að vera á yfirborðinu á meðan kviðurinn brýtur yfirborðsfilmuna og líkir eftir fljúgandi maur sem berst við að komast upp úr vatninu. Þetta sér fiskurinn og tekur hana með offorsi, geggjað!

Klinkhammer: Klinkhammer er vinsæl fluga sem virkar vel í allri silungsveiði, á yfirborði eða rétt undir yfirborði. Hún var hönnuð af hollendingnum Hans van Klinken og ætlað að likja eftir caddis eða vorflugu sem eru að koma upp á yfirborðið. Klinkhammer er ósjaldan notuð sem auka fluga með púpu og virkað þá oft eins og tökuvari.

Iron Blue Dun: Vorflugueftirlíking og algjör klassík, sem er að finna í fluguboxum flestra þurrfluguveiðimanna á Bretlandseyjum. Líkist karlkyns flugum sem klekjast út allt tímabilið, furðu oft á slæmum veður dögum þegar varla aðra flugu er að sjá. Hönnuð af Pat Russel

Ljósmyndir/Runar Þór Björnsson – myndir í eigu Veiðiheima

Fyrsta konan til formennsku hjá SVFR

Fyrsta konan til formennsku hjá SVFR

Ragnheiður Thorsteinsson verður næsti formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur og jafnframt fyrst kvenna til að gegna embættinu. Ekki vekur síður athygli að meirihluti stjórnar félagsins verður skipuð konum. Þó svo að aðalfundur SVFR verði ekki fyrr en 23. febrúar liggur fyrir að ofangreindar breytingar munu eiga sér stað.

Ljósmynd/Ragnheiður Thorsteinsson við Langá á góðum degi.

mbl.is – Veiði · Lesa meira