Reynir námskeið

Flugukastsnámskeið að hefjast

Nú fer grilltíminn að byrja þegar sumarið er gengið í garð og enn einn vorboðinn, flugukastsnámskeiðin, boða komu sína. Þar geta veiðimenn bætt sig í færninni að koma flugunni á réttan stað og þannig stóraukið árangurinn í eltingaleik við lónbúann. Leiðsögumaðurinn og kastkennarinn Reynir Friðriksson býður nú eins og undanfarin ár uppá námskeið bæði á einhendur og tvíhendur og eru fyrstu námskeiðin á Selfossi 2. til 4. maí nk. Námskeiðin verða fyrir byrjendur og lengra komna og óhætt að segja að nú sé gott að dusta vetrarrykið af veiðigræjunum og byrja að koma sér í gott form fyrir sumarveiðitímann sem er rétt handan við hornið.

Í samtali við Reyni upplýsti hann að námskeiðin á Selfossi væru byrjun á röð námskeiða en mikil eftirspurn væri eftir þeim og vonaðist hann til að geta haldið þau á fleiri stöðum eins og Suðurnesjunum og Reykjavík. Bætti hann því við að veiðimenn og konur áttuðu sig á því hversu miklu máli það skipti að ná góðum tökum á flugukasttækninni, það kæmi strax fram í aflabrögðum. 

Ljósmynd/Reynir Friðriksson

Veiðar · Lesa meira

Stirða rauð

Bestar í sjóbleikjuna

Það er fátt skemmtilegra en að kljást við nýgengna sjóbleikju. Á Íslandi má finna frábærar sjóbleikjuár og á Tröllaskaga og í Eyjafirði eru nokkrar af betri sjóbleikjuám landsins. Má nefna Hjaltadalsá & Kolku, Hrolleifsdalsá, Flókadalsá og Fljótaá í Fljótum, sem einnig er þekkt fyrir góða laxveiði. Í Eyjafjörð renna Ólafsfjarðará, Svarfaðardalsá, Hörgá og Eyjafjarðará. Flestar voru þessar ár að gefa um eða yfir 1000 bleikjur þegar vel lét. Eyjafjarðará var sér á báti og gaf oftast yfir 2000 bleikjur og nokkur sumur yfir 3000. En staðan er því miður sú að sjóbleikjan á undir högg að sækja og nú veiðist í sumum af þessum ám einungis þriðjungur og allt upp í tífalt minna en gerði áður.

Falleg sjóbleikja af 5 svæði í Eyjafjarðará (mynd/HH)

Að veiða andstreymis með kúlupúpum hefur verið mest notaða aðferðin í sjóbleikjuveiði frá því árið 2005. Þó ekki sé hægt að staðfesta það, er sennilegt að notkun aðferðarinnar eigi eitthvern þátt í því hvernig komið er fyrir sjóbleikjunni víða. Staðreyndin er nefnilega sú að með henni fara veiðimenn að ná stóru bleikjunum “kusunum” og hér fyrr á árum var enginn kvóti. Þótti það þá sport að koma heim með stærstu sjóbleikjurnar. Sumarið 2006 voru 74% þeirra sjóbleikja, 2 kg og yfir, sem veiddust á svæði 5 í Eyjafjarðará teknar andstreymis á kúlupúpur (Högni H “Eyjafjarðará, Sjóbleikjuparadís?” powerpoint kynning 2010). Hvernig skildi þetta hafa verið undanfarin ár?   

Það sem árnar eiga sameiginlegt er að í nánast öllum þeirra eru sömu flugurnar að fanga mestu veiðina. Í úrtaki, sem sýnir 18 mest notuðu flugurnar í Eyjafjarðaránum árin 2008 – 2020, eru samt sem áður straumflugur talsvert áberandi. Sennilega eru þær talsvert meira notaðar í skoluðu ánum, bæði Hörgá og Svarfaðardalsá.    

Nafn fluguFjöldiNafn fluguFjöldi
Krókurinn1109Blóðormur147
Stirða925Black Ghost95
Pheasant Tail781Peacock94
Nobbler51290
Anna Sonja289Rollan88
Heimasæta271Beykir82
Bleik & Blá266Kúluhaus79
Mýsla184Púpa 76
Dýrbítur166Grey Ghost 66
Unnið af Fiskirannsóknum efh upp úr tölum sem fengnar voru af veiditorgi.is
Veiðihornið

Veiðihornið opnar tvær í einni á netinu

Tvöföld vefverslun Veiðihornsins í Síðumúla fer í loftið í dag. Mikil vinna er að baki enda er bæði um að ræða skotveiðiverslun og stangveiðiverslun. „Já, þetta eru tvær veiðibúðir í einni,“ sagði Ólafur Vigfússon í morgun sárið þegar var verið að gera allt klárt fyrir opna nýju vefverslunina.

Ljósmynd/Veiðihornið

mbl.is – Veiði · Lesa meira

Stirður1

Stirða veiðir allt

Flugan Stirða hefur vakið mikla eftirtekt í áraraðir. Það eru fáar flugur sem hafa þann eiginleika að veiða allar tegundir ferskvatnsfiska. Það er Dalvíkingurinn Marínó H. Svavarsson (Matti Guss) sem er höfundur Stirðu og hefur hnýtt hana fyrir verslanir og velunnendur til fjölda ára.   

Lax sem Matti fékk úr Fljótaá á Bismo Stirðu

Það voru fyrst þær skærlituðu sem vöktu áhuga stangveiðimanna; sú appelsínugula, bleika og rauða. Þær hafa verið ómótstæðilegar í sjóbleikjuveiði, vatnaveiði og reynast einnig vel í sjóbirtingi. Sú svarta hefur einnig verið ótrúlega gjöful, en hana má nota á allar tegundir ferskvatnsfiska og vert að geta þess að allmargir laxar hafa fallið fyrir henni. Aðrir litir; hvítur, brúnn og grænn gefa mönnum fiska við sérstakar aðstæður. 

Dagsverk Matta og uppáhalds bollinn hans

Nú upp á síðkastið hefur Matti verið að bæta í flóruna Stirðum sem hann vill meina að séu gjöfular með ólíkindum, eitthvað svipað og þekkist með Frances og Sunray Shadow í laxveiði eða Pheasant Tail í silungnum. Þær reynast vel við veiðar á öllum ferskvatnsfiskum og þykir það merkilegt hversu góðar þær eru í laxveiði. Enn eru þetta hálfgerð “leynivopn” sem eru í þróun, annars vegar Bismo Stirða og hins vegar Psycho Stirða. Matti segir að Stirða líkist einna helst dauðu eða særðu hornsíli, en þær hreyfa sig þannig í vatninu. Sjálfur kastar hann þeim gjarnan andstreymis, sem gefur þeim þennan eiginleika.  

Ljósmyndir/Matti Guss – Birtar með leyfi höfundar