Stirða rauð

Bestar í sjóbleikjuna

Það er fátt skemmtilegra en að kljást við nýgengna sjóbleikju. Á Íslandi má finna frábærar sjóbleikjuár og á Tröllaskaga og í Eyjafirði eru nokkrar af betri sjóbleikjuám landsins. Má nefna Hjaltadalsá & Kolku, Hrolleifsdalsá, Flókadalsá og Fljótaá í Fljótum, sem einnig er þekkt fyrir góða laxveiði. Í Eyjafjörð renna Ólafsfjarðará, Svarfaðardalsá, Hörgá og Eyjafjarðará. Flestar voru þessar ár að gefa um eða yfir 1000 bleikjur þegar vel lét. Eyjafjarðará var sér á báti og gaf oftast yfir 2000 bleikjur og nokkur sumur yfir 3000. En staðan er því miður sú að sjóbleikjan á undir högg að sækja og nú veiðist í sumum af þessum ám einungis þriðjungur og allt upp í tífalt minna en gerði áður.

Falleg sjóbleikja af 5 svæði í Eyjafjarðará (mynd/HH)

Að veiða andstreymis með kúlupúpum hefur verið mest notaða aðferðin í sjóbleikjuveiði frá því árið 2005. Þó ekki sé hægt að staðfesta það, er sennilegt að notkun aðferðarinnar eigi eitthvern þátt í því hvernig komið er fyrir sjóbleikjunni víða. Staðreyndin er nefnilega sú að með henni fara veiðimenn að ná stóru bleikjunum “kusunum” og hér fyrr á árum var enginn kvóti. Þótti það þá sport að koma heim með stærstu sjóbleikjurnar. Sumarið 2006 voru 74% þeirra sjóbleikja, 2 kg og yfir, sem veiddust á svæði 5 í Eyjafjarðará teknar andstreymis á kúlupúpur (Högni H “Eyjafjarðará, Sjóbleikjuparadís?” powerpoint kynning 2010). Hvernig skildi þetta hafa verið undanfarin ár?   

Það sem árnar eiga sameiginlegt er að í nánast öllum þeirra eru sömu flugurnar að fanga mestu veiðina. Í úrtaki, sem sýnir 18 mest notuðu flugurnar í Eyjafjarðaránum árin 2008 – 2020, eru samt sem áður straumflugur talsvert áberandi. Sennilega eru þær talsvert meira notaðar í skoluðu ánum, bæði Hörgá og Svarfaðardalsá.    

Nafn fluguFjöldiNafn fluguFjöldi
Krókurinn1109Blóðormur147
Stirða925Black Ghost95
Pheasant Tail781Peacock94
Nobbler51290
Anna Sonja289Rollan88
Heimasæta271Beykir82
Bleik & Blá266Kúluhaus79
Mýsla184Púpa 76
Dýrbítur166Grey Ghost 66
Unnið af Fiskirannsóknum efh upp úr tölum sem fengnar voru af veiditorgi.is
Veiðihornið

Veiðihornið opnar tvær í einni á netinu

Tvöföld vefverslun Veiðihornsins í Síðumúla fer í loftið í dag. Mikil vinna er að baki enda er bæði um að ræða skotveiðiverslun og stangveiðiverslun. „Já, þetta eru tvær veiðibúðir í einni,“ sagði Ólafur Vigfússon í morgun sárið þegar var verið að gera allt klárt fyrir opna nýju vefverslunina.

Ljósmynd/Veiðihornið

mbl.is – Veiði · Lesa meira

Stirður1

Stirða veiðir allt

Flugan Stirða hefur vakið mikla eftirtekt í áraraðir. Það eru fáar flugur sem hafa þann eiginleika að veiða allar tegundir ferskvatnsfiska. Það er Dalvíkingurinn Marínó H. Svavarsson (Matti Guss) sem er höfundur Stirðu og hefur hnýtt hana fyrir verslanir og velunnendur til fjölda ára.   

Lax sem Matti fékk úr Fljótaá á Bismo Stirðu

Það voru fyrst þær skærlituðu sem vöktu áhuga stangveiðimanna; sú appelsínugula, bleika og rauða. Þær hafa verið ómótstæðilegar í sjóbleikjuveiði, vatnaveiði og reynast einnig vel í sjóbirtingi. Sú svarta hefur einnig verið ótrúlega gjöful, en hana má nota á allar tegundir ferskvatnsfiska og vert að geta þess að allmargir laxar hafa fallið fyrir henni. Aðrir litir; hvítur, brúnn og grænn gefa mönnum fiska við sérstakar aðstæður. 

Dagsverk Matta og uppáhalds bollinn hans

Nú upp á síðkastið hefur Matti verið að bæta í flóruna Stirðum sem hann vill meina að séu gjöfular með ólíkindum, eitthvað svipað og þekkist með Frances og Sunray Shadow í laxveiði eða Pheasant Tail í silungnum. Þær reynast vel við veiðar á öllum ferskvatnsfiskum og þykir það merkilegt hversu góðar þær eru í laxveiði. Enn eru þetta hálfgerð “leynivopn” sem eru í þróun, annars vegar Bismo Stirða og hins vegar Psycho Stirða. Matti segir að Stirða líkist einna helst dauðu eða særðu hornsíli, en þær hreyfa sig þannig í vatninu. Sjálfur kastar hann þeim gjarnan andstreymis, sem gefur þeim þennan eiginleika.  

Ljósmyndir/Matti Guss – Birtar með leyfi höfundar

Valdimar kennsla

Kennir náttúrufræði með fluguhnýtingum

Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir skrifar / 06.09.2021 kl. 15:00

Valdimar Heiðar Valsson er nýr skólastjóri Hlíðarskóla við Skjaldarvík. Hann er mikill stangveiðimaður og ætlar að flétta kennslu í fluguhnýtingum saman við ýmis önnur fög.

„Fræðslan verður í formi kynningarmyndbanda, fyrirlestra og efnis af internetinu. Til að mynda verður vatnakerfið í ám og vötnum rannsakað og fræðst um hvað er að gerast undir yfirborðinu þegar lirfur og flugur eru að klekjast. Tekið verður fyrir ákveðið verkefni í hverri kennslustund. Hugað verður að lífsferli flugunnar frá lirfum og þangað til þær klekjast út sem flugur. Við líkjum eftir hverju stigi og tökum hvert ferli fyrir sig og lærum um það. Verkefnið okkar er að hnýta flugur sem eru sambærilegar. Alltaf verður reynt að líkja eftir því æti sem er undir yfirborðinu. Þetta er því jafnframt kennsla í náttúrufræði,“ segir Valdimar í samtali við Akureyri.net.

En hvernig kviknaði hugmyndin?

„Áður en ég tek við skólastjórastöðunni þá hitti ég strák við Ljósavatn, sem er nemandi hér, og við fórum að spjalla á meðan við vorum að veiða. Svo æxlast það þannig að ég er ráðinn hingað sem skólastjóri og þá fer ég strax að hugsa um áhugann sem þessi drengur hafði á veiði. Ég vissi að ef ég gæti fléttað áhugamálið hans við nám að þá fyndist honum ábyggilegra skemmtilegra að læra.“

Það kom svo í ljós þegar hann hitti alla nemendur skólans að þrír í viðbót höfðu mikinn áhuga á veiði og fluguhnýtingum. „Þeir nemendur hafa verið að koma með fluguboxin sín í skólann og sýna mér og það er rosalega gaman að deila áhugamáli með nemendum sínum.”

Rífum niður alla múra

Í Hlíðarskóla er pláss fyrir 20 nemendur. Skólinn er rekinn af Akureyrarbæ og ætlaður fyrir börn sem glíma við einhverskonar vanda í skólakerfinu. Flóra nemenda er breið en þau eiga það sameiginlegt að hafa ekki verið að finna sig í skólakerfinu og í sínum heimaskóla. Þegar reynt hefur verið til þrautar að finna lausnir í þeirra heimaskólum, fara sum barnanna í Hlíðarskóla. „Stundum þurfa þau bara að skipta um umhverfi, stilla kompásinn upp á nýtt og reyna svo aftur í sínum heimaskóla. Oft hefur þetta mikið með vanlíðan að gera hjá einstaklingnum og við vinnum dálítið í því að komast að rót vandans því það er dálítið erfitt fyrir barn að læra ef því líður illa og fyrir því geta verið ótal ástæður. Við erum með öflugt teymi sem vinnur að bættri líðan barnanna og síðan erum við með foreldravinnu og vinnum náið með þeim. Það er alltaf markmiðið hjá okkur í Hlíðarskóla að koma nemandanum á beinu brautina svo hann geti farið aftur í sinn heimaskóla.”

Valdimar bætir við: „Það sem mér finnst áhugavert við nám er að það er hægt að fara svo margar leiðir, möguleikarnir eru endalausir ef maður er bara nógu frjór í hugsun. Ég er svo heppinn að hafa alveg ótrúlega gott starfsfólk með mér í Hlíðarskóla og við deilum þeirri sýn að nálgast nám á eins fjölbreyttan hátt og hægt er. Ég sagði mínu starfsfólki fyrsta daginn sem ég hitti þau að við myndum rífa niður alla múra og leita allra leiða til að vekja áhuga nemandans á námi og það finnst mér við vera að gera. Við erum líka með nokkrar aðrar hugmyndir sem eru í vinnslu þannig að við erum rétt að byrja.“

Hvað eru flugurnar margar?

Valdimar segir að nám þurfi ekki endilega að vera kennt á bókina og enn séu margir kennarar of fastir í því. Sumir nemendur glíma við námsörðugleika og eiga erfitt með að finna hvatann til að læra. Þá er gott að leitað sé annarra leiða í kennslunni til að fá tilbreytingu og annan vinkil á námið. Gera áhugamál þeirra t.d. að námsefni, hvort sem það er veiði, íþróttir eða eitthvað annað. „Það er miklu meira spennandi að hnýta fimm laxaflugur og margfalda síðan hvað maður væri kominn með margar laxaflugur eftir hvert skipti en sitja með bók og læra fimm sinnum töfluna.“ 

Valdimar fór að velta fyrir sér hvernig hægt væri að hrinda hugmyndinni í framkvæmd því það er kostnaðarsamt að koma upp aðstöðu til fluguhnýtinga. Hann ákvað að biðla til meðlima veiðisamfélags á Facebook sem kallast „Veiðidellan er frábær“. Þar sagði hann frá því að hann væri ný tekinn við sem skólastjóri Hlíðarskóla og væri með hugmynd um að nálgast kennsluna á öðruvísi hátt – með fluguhnýtingum. En það væri gríðarlega dýrt að koma upp aðstöðunni og skólinn hefði ekki bolmagn til að kaupa búnaðinn. Ef einhver ætti dót sem safnaði ryki, þá yrði hann mjög þakklátur ef skólinn gæti fengið að nýta það.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Það eru ótrúlega margir sem eru búnir að gefa okkur fullt af dóti; hnýtingarefni, væsa, tæki og tól. Það liggja mikil verðmæti í þessum gjöfum, tugir, jafnvel hundruð þúsunda. Við verðum með flotta aðstöðu til fluguhnýtinga í vetur og mér finnst alveg frábært að skólinn geti boðið upp á hana.“

Hnýta í vetur – veiða í vor

Valdimar vill koma á framfæri miklu þakklæti til þeirra sem létu þetta verkefni verða að veruleika.

„Við munum nú byrja á því að setja upp aðstöðuna. Það þarf að byrja á að flokka og merkja búnaðinn. Þar mun reyna á samskipti, samvinnu og skipulag. Þetta er líka lífsleikni því allir þurfa að vinna saman.“

Fluguhnýtingar er valfag. Hægt er að velja í hverja viku fyrir sig. Í fyrsta tíma eru skráðir fjórir af þeim sautján nemendum sem eru í skólanum, svo það gæti bæst í hópinn. Það verður hnýtt í allan vetur, alls konar gerðir af flugum t.d. púpur, votflugur, straumflugur og laxaflugur og nemendur læra að nota réttu handtökin þegar kemur að fluguhnýtingum.

Markmiðið er svo að fara í veiðiferð í vor. Þá spreyta þau sig með flugurnar sem þau hafa hnýtt um veturinn.

Valdimar er fæddur á Akureyri en ólst upp á Hauganesi. Þar lék hann sér mikið í fótbolta og eyddi löngum stundum við veiðar á bryggjunni. Veiðin er honum í blóð borin og hefur alltaf verið eitt af hans aðal áhugamálum. Hann býr nú á Akureyri ásamt sambýliskonu sinni og eiga þau þrár dætur.

Valdimar starfaði á meðferðarheimilinu á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit í 11 ár. Heimilið var fyrir stúlkur sem voru langt leiddar vegna vímuefnaneyslu. Hann hefur því, auk kennsluréttinda, mikla þekkingu og reynslu af að hjálpa einstaklingum sem þurfa að takast á við erfiðar áskoranir. Þetta er þó í fyrsta skipti sem hann stígur inn í grunnskóla sem starfsmaður og er að læra allt mjög hratt. Hann brennur fyrir að vinna með krökkum í vanda og er spenntur fyrir vetrinum í Hlíðarskóla.

Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Frétt fengin með leyfi á Akureyri.net

Echostangir

Echo flugustangir

Flugustangir frá Echo hafa vakið mjög mikla athygli hér á landi síðustu misserin.

Stangirnar þykja mjörg ódýrar miðað við gæðin, sem eru mikil. Það er Bandaríkjamaðurinn Tim Rajeff sem er hönnuður Echo flugustanganna. Hann hefur gríðarlega reynslu þegar flugustangir eru annars vegar. Tim starfaði um áratug hjá G. Loomish og var þar allt í öllu áður en hann ákvað að stofna sitt eigið fyrirtæki í kringum Echo vörumerkið. Echo framleiðir einnig mjög góð fluguhjól á frábæru verði. Það hefur ávallt verið aðalmarkmið Tim´s að veiðimenn fái sem mest fyrir þann pening sem þeir verja til kaupa á vörum fyrir fluguveiði.

Óhætt er að fullyrða að óvíða fái veiðimenn meira fyrir peninginn. Reyndir veiðimenn og leiðsögumenn hafa margir líst yfir mikilli ánægu með Echo stangirnar og furðað sig á verðinu. Líftsíðarábyrgð er á stöngunum.

Gylfi Kristjánsson leiðsögumaður er einn þeirr sem hafa notað Echo stangirnar og er mjög sáttur: “Ég hef nú þegar prófað einar sjö útgafúr af Echo stöngunum og þær hafa gjörsamlega heillað mig. Þetta eru hreint frábærar stangir í alla staði og maður er á fá ´tulega mikið fyrir peninginn”, segir Gylfi.

Högni Harðarson leiðsögumaður hefur einnig tekið ásfóstri við Echo stangirnar og segir þær ótrúlega góðar: “Verðið á stöngunum er alveg ótrúlegt miða við öll þessi gæði og svo er lífstíðarábyrgð að auki. Ég hef veitt mikið með dýrari stöngum í gegnum árin og geri engan greinarmun á þeim og stöngunum frá Echo,” segir Högni.

Echo stangirnar fást hjá Krafla.is (s. 698-2844), í Veiðflugum og hjá Veiðiríkinu á Akureyri. Vera kann að fleiri verslanir bætist í hópinn innan skamms.

IMG_0454 (1)

Besta aðferðin?

Talið er að menn fari fyrst að stunda andstreymisveiði hérlendis, með púpu og tökuvara, um 1988 – 1989. Helst voru þetta veiðimenn sem höfðu verið við veiðar á erlendri grundu og fluttu þekkinguna með sér til landsins. Sjálfur lærði ég að veiða með aðferðinni í Colorado, þar sem ég var við nám, árin 1996 – 1997. Það er svo ekki fyrr en um 2000 sem andstreymisveiði verður nokkuð algeng hér á landi og á árunum 2004 – 2005 er hún orðin mest notaða aðferðin í silungsveiði. 

En hvað var það sem gerði hana svona vinsæla: STÆRRI FISKAR! 

Búnaður

Þegar veitt er andstreymis fylgir því notkun á léttari græjum en í straumflugu- og votfluguveiði. Ekki þarf löng köst til að koma flugunni til fisksins, því oftast er verið að egna fyrir fisk sem liggur stutt frá veiðimanninum. Mikilvægast er þó að velja rétta lengt taums og nota tökuvara. 

Stangir: 8 – 9’ henta best 

Línur: # 4 – 6 

Taumur: 5x upp í 0x sem er slitstyrkur 4 – 10 pund

Tökuvarar: til eru fjölmargar tegundir, sjálfur nota ég mest leir (“Do”) og sporöskjulaga tökuvara frá Orvis (sjá að neðan)  

Hvernig maður ber sig að 

Menn verða að meta aðstæður, t.d. dýpt, rennsli og einnig lofthita. Ef sækja þarf fiskinn djúpt er best að nota þyngdar púpur og taumalengd skal miðast við dýpt veiðistaðarins. Það þýðir t.d. lítið að vera með 3-4 metra taum, þar sem fiskur liggur í talsverðum straumi á 1.5 metra dýpi. Fiskur á það þó til að sækja flugur sem eru nær yfirborði en oftast er hann frekar latur við það. Oft dugar að nota einn tökuvara, en þar sem straumur er mikill og öldur geta myndast er gott að vera með tvo. Sjálfur geri ég það, sérstaklega við veiðar í Laxá í Þingeyjarsýslu, en þar finnst mér ósjaldan gott að bæta við leir (“Do”) sem sekkur síður við notkun þungra púpa. Margir velja að nota tvær púpur, veiða á legg, oft þá með eina þunga sem notuð er til að sökkva hinni. Vinsælt er einnig að hafa þurrflugu sem efri flugu og verður hún þá eins konar tökuvari. 

Uppsetningin við notkun á tveimur flugum er misjöfn, sumir nota hringi (“jig”), aðrir búa til lykkjur og enn aðrir binda sérstaka hnúta til að skeyta þeim saman. Það að nota lykkjur, tel ég sjálfur gera flugurnar mjög líflegar í vatninu og hefur reynst mér vel. Passa þarf að tökuvarinn fari ávallt á undan flugunni, dragi hana bókstaflega. Ef tökuvarinn er kominn á undan, er flugan ekki að veiða. Svo er að muna að bregðast við um leið og tökuvarinn hreyfist eða fer í kaf. 

Andstreymisveiði vs. aðrar aðferðir 

Eins og áður hefur komið fram er andstreymisveiði á silungi vinsæl aðferð og mest notuð. Öfugt við straumflugu-, votflugu- og þurrfluguveiði er hægt að ná til fisks sem liggur djúpt og oft er þetta stór fiskur sem síður hreyfir sig eftir öðru agni. En hvernig er hún samanborin við maðkaveiði? Mitt fyrsta svar væri að segja að hún væri skæðari og ef ekki er farið varlega er auðveldlega hægt að þurrka upp heilu stofnana í viðkvæmum silungsám. Hið góða við hana er þó að menn eiga þann kost að sleppa fiski sem oft er lítið skaddaður. Það er oftast ekki möguleiki í maðkaveiði. 

Hér að neðan koma skýrt fram þær breytingar sem urðu við aukna notkun aðferðarinnar. Enginn afli var skráður á þurrflugu, votflugu eða púpur án kúlu. Talsvert hlutfall aflans var eingöngu skráður á flugu en frekari tegund þeirra ekki tekin fram.   

Fjöldi bleikja 2 kg og stærri sem veiddust á flugu á 5 sv. í Eyjafjarðará 2002-2006.   

 Flugutegund20022003200420052006
Fluga 36%33%34%42%9%
Straumfluga10%16%5%12%17%
Þurrfluga0%0%0%0%0%
Votfluga0%0%0%0%0%
Púpa0%0%0%0%0%
Kúlupúpa57%57%61%46%74%
Ónefnt0%0%0%0%0%
        Samtals3049565123

Röndin Amber

Púpurnar hans Sveins Þórs

Það má sannarlega segja að púpurnar hans Sveins Þórs Arnarsonar á Akureyri hafi skipað sér stóran sess hjá stangveiðimönnum á Íslandi. Þær þykja ótrúlega veiðnar; eru flestar þyngdar með þungsteini og ná því vel til fisksins þegar andstreymisveiði er beitt. Hvort heldur sem er, urriði eða bleikja, þá eru þær ómissandi og einnig nýtast þær til að egna fyrir laxi.    

Púpurnar hans Sveins eru flest allar með kúluhaus, einkar vel hnýttar og endingargóðar. Notast er við ofurlím þannig að þær þola mikið álag og vel tennta fiska. Lagt er í að hafa þær þungar; uppbyggðar með þungsteinsþynnum og ósjaldan með “tungstein” kúlum. Þannig að þær sökkva á miklum hraða niður í hröðustu strengi. Sveinn segist svo bæta við litlu atriði sem hann er tregur að gefa upp “ég set í margar þeirra efni sem endurvarpa útfjólubláum geislum eða þá sérkennileg glitefni sem virka vel í sólskini eða ákveðnum birtuskilyrðum. 

Röndin 

Þessi fluga hefur reynst mörgum stangveiðimönnum vel, sérstaklega í silungsveiði. Hún er einstaklega skæð í urriðaveiði í Laxá í Þingeyjarsýslu. 

Rollan    

Frábær fluga í hvort tveggja bleikju og lax. Galdurinn er skottið, sérstaklega á rauðu útgáfunni en þar notar Sveinn við ull sem fæst ekki hér á landi 

Glóðin 

Þessi er fyrst og fremst sjóbleikjufluga sem glóir í vatni í sólskini. Hún er til í ýmsum litum og útgáfum 

 Pheasant Tail 

Þessi Útgáfa Sveins á Pheasant Tail má segja að sé ein sú besta sem þekkist. Hún hefur reynst ótrúlega vel í Laxá í Þingeyjarsýslu og einnig má segja allstaðar, jafnt í ám og vötnum t.d. Þingvallavatni. Sveinn segist oft velja hana sem sýna fyrstu flugu. 

Högni Harðarson: Ávallt með 15 stk í boxinu. Bráðnauðsynleg í Laxá, þarf varla að notast við annað

Gulltoppur

Veiðir jafnt sjóbleikju, lax og sjóbirting. Hana tók risalax í Fljótaá, sem var á að giska um 20 pund, en hafði betur í baráttu sem tók 45 mínútur