Stirða rauð

Bestar í sjóbleikjuna

Það er fátt skemmtilegra en að kljást við nýgengna sjóbleikju. Á Íslandi má finna frábærar sjóbleikjuár og á Tröllaskaga og í Eyjafirði eru nokkrar af betri sjóbleikjuám landsins. Má nefna Hjaltadalsá & Kolku, Hrolleifsdalsá, Flókadalsá og Fljótaá í Fljótum, sem einnig er þekkt fyrir góða laxveiði. Í Eyjafjörð renna Ólafsfjarðará, Svarfaðardalsá, Hörgá og Eyjafjarðará. Flestar voru þessar ár að gefa um eða yfir 1000 bleikjur þegar vel lét. Eyjafjarðará var sér á báti og gaf oftast yfir 2000 bleikjur og nokkur sumur yfir 3000. En staðan er því miður sú að sjóbleikjan á undir högg að sækja og nú veiðist í sumum af þessum ám einungis þriðjungur og allt upp í tífalt minna en gerði áður.

Falleg sjóbleikja af 5 svæði í Eyjafjarðará (mynd/HH)

Að veiða andstreymis með kúlupúpum hefur verið mest notaða aðferðin í sjóbleikjuveiði frá því árið 2005. Þó ekki sé hægt að staðfesta það, er sennilegt að notkun aðferðarinnar eigi eitthvern þátt í því hvernig komið er fyrir sjóbleikjunni víða. Staðreyndin er nefnilega sú að með henni fara veiðimenn að ná stóru bleikjunum “kusunum” og hér fyrr á árum var enginn kvóti. Þótti það þá sport að koma heim með stærstu sjóbleikjurnar. Sumarið 2006 voru 74% þeirra sjóbleikja, 2 kg og yfir, sem veiddust á svæði 5 í Eyjafjarðará teknar andstreymis á kúlupúpur (Högni H “Eyjafjarðará, Sjóbleikjuparadís?” powerpoint kynning 2010). Hvernig skildi þetta hafa verið undanfarin ár?   

Það sem árnar eiga sameiginlegt er að í nánast öllum þeirra eru sömu flugurnar að fanga mestu veiðina. Í úrtaki, sem sýnir 18 mest notuðu flugurnar í Eyjafjarðaránum árin 2008 – 2020, eru samt sem áður straumflugur talsvert áberandi. Sennilega eru þær talsvert meira notaðar í skoluðu ánum, bæði Hörgá og Svarfaðardalsá.    

Nafn fluguFjöldiNafn fluguFjöldi
Krókurinn1109Blóðormur147
Stirða925Black Ghost95
Pheasant Tail781Peacock94
Nobbler51290
Anna Sonja289Rollan88
Heimasæta271Beykir82
Bleik & Blá266Kúluhaus79
Mýsla184Púpa 76
Dýrbítur166Grey Ghost 66
Unnið af Fiskirannsóknum efh upp úr tölum sem fengnar voru af veiditorgi.is
Breiðdalsá veiði

Silungsveiðiár á Austurlandi

Á Austurlandi renna margar skemmtilegar veiðiár til sjávar og má segja að þarna sé paradís stangveiðimannsins. Þeir sem velja það að stunda laxveiði hafa þann kost að fara í Jöklu og hliðarár hennar eða þá í Vopnafjörðinn, þar sem tvær af bestu laxveiðiám landsins renna. En á Austurlandi eru fjölmargar silungsveiðiár þar sem aðallega veiðist bleikja, þó urriði finnist einnig víða. 

Ein af betri sjóbleikjuám landsins er Norðfjarðará í Norðfirði, stutt frá Neskaupstað. Hún á sér trygga aðdáendur og eru leyfi oftast uppseld þegar líða fer á vorið. Ekki er óalgengt að veiðin sé þetta 700 – 800 bleikjur á sumri og eru þær flestar um 1 – 2 pund. Besti tíminn er júlí og fram í ágúst. Það að efsti kafli árinnar séu friðaður hefur gefið góða raun. 

Stutt frá Norðfjarðará eru Eskifjarðará, Sléttuá í Reyðarfirði og svo Dalsá í Fáskrúðsfirði. Í öllum þessum ám er sjóbleikja, þó það megi nú segja að þær fyrst nefndu hafi verið stórlega spilltar með malartekju. Í Eskifjarðará veiðist nú aðallega í ósnum, en einnig má fá fiska á veiðistöðum inn af eyðibýlinu Eskifjarðarseli. Í Sléttuá er mest veitt fyrir landi jarðarinnar Sléttu, en einnig getur verið fín veiði inn af Melshorni þar sem árnar úr Skógdal og Þórsdal renna í Sléttuá. Besti tíminn er svipaður og í Norðfjarðará, stærstu bleikjurnar koma í júlí og þær smærri í ágúst.  

Fallegur veiðistaður í Dalsá

Dalsá í Fáskrúðsfirði er lagleg dragá og meira stunduð en Sléttuá og Eskifjarðará. Stærð bleikjunnar er þó svipuð, getur verið upp í 3-4 pund. Í Dalsá veiðist einnig eitthvað af laxi. Stutt frá Dalsá er Tungudalsá en í henni er einnig sjóbleikja. Hún hefur þann galla að breyta sér töluvert á milli ára, vegna mikilla hlaupa sem eru tíð. Þó virðast nokkrir veiðistaðir halda sér árlega og þar má fá bleikju af sömu stærð og í Dalsá. Báðar árnar er með ófiskgengum fossum og er Tungudalsá aðeins fiskgeng um 4 km.     

Í Breiðdalsá, sem er orðin vinsæl hjá hópum, er boðið upp á vorveiði og glæsilega gistiaðstöðu frá 1. maí. Veiðin fer fram á neðsta hluta árinnar, þar sem aðallega er að finna sjóbleikju en einnig einstaka sjóbirting og lax. Yfir sumartíman má svo sækja inn á dal, ofan við fossinn Beljanda, og kasta fyrir staðbundinn urriða. Hann er einnig að finna ofarlega í Norðurdalsá, sem sameinast Tinnudalsá og eru hluti af vatnakerfi Breiðdalsá. Á þessum tíma geta menn fengið gistingu í veiðihúsinu, eða þá í gistigámum rétt við veiðihúsið með afnot af baðherbergi. 

Fjarðará í Borgarfirði, þarna leynast fallegar bleikjur

Þá ber næst að nefna þær fjölmörgu ár sem bera nafnið Fjarðará. Ein er í Borgarfirði Eystri, önnur í Loðmundarfirði og enn önnur í Seyðisfirði. Sú fyrst nefnda, er ásamt hliðará sinni Þverá, drjúg sjóbleikjuveiðiá. Þær eiga vaxandi vinsældum að fagna, en eru kannski heldur út úr alfara leið. Til að gera langa sögu stutta, þá er sú Fjarðará sem rennur um Loðmundarfjörð einungis nýtt af landeigendum. Vinsælust er Fjarðará í Seyðisfirði. Hún að upptök sín á Fjarðarheiði og rennur neðsti hluti hennar í gegnum kaupstaðinn. Í henni er góð sjóbleikja, talsvert af 2-3 punda fiskum en þó mest í kringum pundið. Hún hentar vel fyrir fluguveiði, enda með fjölbreytt úrval veiðistaða. Besta veiðin er talin vera síðsumars. 

Ekki ýkja langt frá Egilsstöðum eru veiðisvæði Selfljóts og Gilsár. Þetta er vinsælt veiðisvæði, enda veiðistaðir fjölbreyttir og ekki skemmir að Dyrfjöll og Beinageitarfjall tróna yfir þeim. Á miðsvæðum árinnar má finna hvort tveggja bleikju og urriða, ágætan fisk en stærstu bleikjurnar er þó að finna í Gilsá og einnig í Bjarglandsá. Þegar líður á sumarið má þar einnig fá lax. Smá keyrsla er að ósasvæði árinnar en þar er boðið upp á vorveiði á bleikju og sjóbirtingi. Þó aðeins um helgar og er veiðitíminn sveigjanlegur í 12 klst á sólarhring. Annars þá opna svæðin 20. júní og í byrjun júlí. Veiðisvæði sem hefur margt uppá að bjóða fyrir allar gerðir veiðimanna. 

Veiðisvæði Selfljóts eru fjölbreytt og spennandi, mynd af 5 svæði

Fögruhlíðarós er annað rómað sjóbleikjusvæði þar sem veiða má inn í nóttina. Þar hafa veiðimenn upplifað hreint magnaða veiði með flugustöng að vopni. Sjóbirtingur sveimar einnig um svæðið í einhverju mæli og einn og einn lax. Ofar í ánni eru ágætis urriða mið.  

Að lokum ber að nefna nokkrar ár þar sem urriði veiðist í meira mæli eða eingöngu. Múlaá fellur úr Skriðuvatni í Suðurdal. Í vatninu er hvort tveggja bleikja og urriði, en einungis urriði í ánni. Veiði er leyfð efst í Múlaá, þar sem hún verður til úr hálfgerðu lóni sem fellur úr Skriðuvatni. Þarna veiðast vænir urriðar. Svæðið er hluti af Veiðikortinu og stutt frá þjóðvegi eitt. Kelduá er dragá í Fljótsdalshreppi og á upptök sín í Kelduárvatni. Í henni er mikið af urriða, fremur smáum en gaman að kljást við hann á léttan búnað. Þarna var á sínum tíma góð bleikjuveiði, en hún er að mestu leyti horfin. Í Kelduá eru nokkrir álitlegir veiðistaðir og er sá vænlegasti, Hrakhamarshylur, neðan við bæinn Víðivelli. Aðeins 12 km frá Egilsstöðum er Rangá sem kemur úr Sandvatni og rennur í Lagarfljót. Eins og í Kelduá, er það aðallega smár urriði sem veiðist og þá aðallega í uppánni. Á árum áður var mikil bleikjuveiði í ánni og þá sérstaklega þar sem hún rennur í Lagarfljót. Nú er sagan önnur, en veiðin spilltist við virkjunarframkvæmdir að Kárahnjúkum. Rangá er fiskgeng upp að fossi, en þar eru veiðistaðir í gili sem erfitt er að nálgast. En neðar eru margir fallegir hyljir og er þekktasti veiðistaðurinn, Árkrókur, í beygju þar sem Merkjalækur rennu í ána.   

Hörgá mynd6

Félagasamtökin Bleikjan

Bleikjustofnum heimsins fer fækkandi og víðast hvar eru stofnstærðir að minnka. Á Íslandi og í Noregi benda veiðitölur til mikils samdráttar í stofnum sjóbleikju. Á sama tíma eykst sókn í stangveiðar. Eitt skýrasta dæmið er bleikjustofninn í Eyjafjarðará, þar sem sókn jókst jafnt og þétt til ársins 2001 en eftir það verður algjört hrun í stofninum.Orsakir fækkunar bleikju eru hins vegar óljósar, þótt ekki skorti tilgátur. Á mörgum vatnasvæðum varð afgerandi breyting á tegundasamsetningu, samhliða fækkun bleikjunnar.  

Félagasamtökin Bleikjan eru nýstofnuð velferðarsamtök um stofn bleikju á Íslandi. Markmið samtakanna er að gæta hagsmuna bleikjunnar og finna orsök fækkunar, einkum í þeim stofnum sem teljast vera í útrýmingarhættu. 

Sannkölluð stórbleikja, en þeim fer fækkandi

​Bleikjustofnar Íslands hafa átt undir högg að sækja síðustu áratugi og almennt hefur stofnstærð staðbundinnar bleikju og sjóbleikju farið minnkandi. 

Dæmi um samdrátt í staðbundnum bleikjustofni er stofninn í Mývatni en hrun var í bleikjustofninum árið 1988 og aftur árið 1997. Ljóst er að bleikjustofninn í Mývatni var orðinn verulega lítill og gilda enn strangar veiðitakmarkanir í vatninu. Veiði á sjóbleikju hefur sömuleiðis farið minnkandi í flestöllum landshlutum. Í gegnum árin hefur veiðin verið mest á Norðvesturlandi, en hefur nær stöðugt farið minnkandi síðustu 20 árin. Árið 2001 veiddust um 40.000 bleikjur á stöng á Íslandi en árið 2018 var heildarveiðin rúmlega 27.000 bleikjur.

Samtökin ætla að fræða almenning um stöðu bleikjustofnsins almennt og meta aðgerðir til að styrkja stöðu þeirra. 

Stangveiðimenn og veiðiréttarhafar hafa brugðist við með því að minnka afföll bleikju vegna stangveiða, þ.e. víða hefur verið settur á strangur kvóti, til að halda veiðidauða í lágmarki.

Á sama tíma eru heimilar netaveiðar í sjó.Til eru sagnir um gríðarlega veiði á bleikju í þau net. Í sumum tilvikum gæti netaveiðin numið meiru en því sem veiðist á stöng á viðkomandi vatnasvæði.

Högni Harðarson

Sjóbleikja í Eyjafirði

Í Eyjafjörð renna nokkrar af þekktustu sjóbleikjuám landsins. Þær helstu eru Ólafsfjarðará, Svarfaðardalsá, Hörgá og svo sjálf drottningin Eyjafjarðará. Lítið hefur verið um fréttir af ánum þetta sumar, þó lítillega af Eyjafjarðará og Hörgá. En er þá ekkert að frétta?

Byrjum á Ólafsfjarðará, því satt að segja þá er það hún sem stendur upp úr. Veiðin þar byrjaði rólega, mikið vatn var í júlí en menn þó að fá nokkra fiska við erfiðar aðstæður. Þegar sjatnaði í ánni snemma í ágúst, fór allt af stað og var veiðin oft um 20 – 30 bleikjur á stöng daglega. Nú á haustdögum er eðlilega ekki jafn mikið fjör en veiðin þó enn ásættanleg. Skráðar hafa verið 404 sjóbleikjur upp úr ánni sem má teljast gott miðað við 117 í fyrra.

Svona er þetta í Ólafsfjarðará þessa dagana – Fengið frá Jóhann Gunnari veiðiverði

Svarfaðardalsá var í miklum ham, vegna vatnavaxta, allt fram í ágúst. Þá fóru að berast sögur af fallegum fiski og að einkennandi fyrir veiðina væru fáir fiskar en stórir. Nú er hægt að kaupa hálfa daga í ánni og kvóti hefur verið minnkaður niður í 3 fiska. Skráðir hafa verið 115 fiskar en þess má geta að sumarið 2009 voru skráðar 1222 bleikjur og sumarið 2010 voru þær 1055. Þetta er eðlilega sláandi en þó spila inn vatnavextir sem lengi komu í veg fyrir ástundun manna.

Líkt og í Svarfaðardalsá var svipað og jafnvel verra ástand í Hörgá. Miklir vatnavextir spilltu veiði og var áin ekki almennilega veiðanleg fyrr en seint í ágúst. Hörgá er sú sjóbleikjuá í Eyjafirði sem sveiflast mest miðað við veðurfar. Henni er skipt í 7 svæði og ef þannig háttar að veður eru válynd geta öll svæðin orðið óveiðanleg, nema hugsanlega tvö þeirra, 4b og 5b. Skráðar hafa verið 112 bleikjur sem er mjög lítil veiði. Lokatalan 2020 var 324 og sumarið 2019 var hún 657.

Guðrún Una með eina væna úr Hörgá (Guðrún Una Jónsdóttir)

Svo er það sjálf drottningin, Eyjafjarðará. Hún var í miklum ham fyrri part sumars og lengi óveiðanleg. En þegar aðstæður bötnuðu fór að lifna yfir veiðinni og þá aðallega á efsta svæðinu, því fimmta. Fréttir fóru að berast af stóru bleikjunum, sem oft eru kallaðar “kusur”, en ávallt sömu menn þar á ferð. Varla nokkuð heyrðist frá mönnum um veiði á neðri svæðunum, þó við og við um væna sjóbirtinga sem voru að veiðast á svæði 0 og 1. Nú er tími sjóbirtingsins í ánni og það er hann sem heldur veiðinni uppi, en ein og ein bleikja veiðist þó. Skráðar hafa verið 138 bleikjur, sem er hrein hörmung. Allt sumarið 2018 voru skráðar 837 bleikjur og sumarið 2019 voru þær 671. Á sama tíma hafa verið skráðir 289 sjóbirtingar/urriðar sem að stórum hluta veiddust í vorveiðinni í apríl og maí, samtals 93 stk. Þessar tölur benda til þess að friðun og breytingar á veiðifyrirkomulagi í ánni hafi ekki skilað því sem vænst var.

Hnausþykk “kusa” af svæði 5 í Eyjafjarðará (facebook; eyjafjarðará – sjóbleikja og sjóbirtingur)

Allir stangveiðimenn, sem stundað hafa sjóbleikjuveiði, vita að stofninn er á undanhaldi. Hvað því veldur hefur verið erfitt að fullyrða. Það helsta sem nefnt er eru breytingar í náttúrunni, ofveiði, sand- og malartekja og samkeppni við aðrar fisktegundir. Einnig hefur netaveiði verið nefnd. Undanfarið hafa reglur í sambandi við kvóta í eyfirsku ánum breyst, loksins á að reyna að koma í veg fyrir algjört hrun. Það breytist vart mikið með þessari einu aðgerð, það þarf meira til. Stöndum saman og björgum sjóbleikjustofninum!

Högni Harðarson tók saman

SVFR heiður

Gulldrengir við Elliðaárnar í röðum við veiðar

Þann 9. janúar 1975, lagði þáverandi varaformaður SVFR , Magnús Ólafsson, fram á stjórnarfundi, tillögu þess efnis, að stofnað skyldi Heiðursmerki SVFR, er veitt skyldi félagsmönnum, er unnið hefðu lengi og dyggilega að hagsmunamálum félagsins og einnig samstarfsaðilum, er sýnt hefðu félaginu velvilja í gegnum árin og drengilegan stuðning við málstað stangaveiðimanna.

Sú hefð hefur skapast að sæma stjórnarmenn félagsins, sem látið hafa af störfum silfurmerki. Heiðursmerkin skyldu vera tvennskonar. Silfurmerki og Gullmerki með lárviðarkrans. Síðan hafa nærri 100 aðilar hlotið silfurmerki og 19 gullmerki.

En þeir sex gullmerkjahafar sem eru á lífi eru:

Félagsmaður nr. 1, Guðrún E. Thorlacius fædd 1925. Sæmd Gullmerki félagsins á árshátið 2019.

Félagsmaður nr. 16. Jón G. Baldvinsson, fæddur 1944. Hann var í árnefnd Laxár í Kjós 1969, Stóru-Laxár 1970-1983, í stjórn SVFR 1970-1974. Formaður skemmtinefndar 1974-1979, aftur í stjórn 1979-1992, þar af 6 ár sem formaður. Formaður fulltrúaráðs frá 1992 til 1997. Í Norðurárnefnd og formaður hennar frá 1995. Sæmdur gullmerki félagsins í maí 2003.

Félagsmaður nr. 151, Ólafur Kr. Ólafsson fæddur 1946. Í árnefnd Sogsins frá 1975 og formaður þar frá 1979.  Í kast- og kennslunefnd frá 1997.

Sæmdur gullmerki félagsins á aukaaðalfundi í febrúar 2013.

Félagsmaður nr. 294, Bjarni Júlíusson. Var í skemmtinefnd 1992 – 1994. Sat í stjórn SVFR 1993 – 2001. Ritari stjórnar 1995 – 1996. Gjaldkeri stjórnar 1996 – 2001. Í árnefnd Stóru Laxár 2002 – 2004. Formaður SVFR 2004 – 2007. Formaður fulltrúaráðs SVFR 2007 – 2010. Endurkjörinn formaður SVFR á aðalfundi 28.nóvember 2010. Gegndi formannsembætti til aðalfundar 2014 sem haldinn var 22.febrúar 2014. Formaður fulltrúaráðs frá 2014 – 2018. Bjarni er sá formaður sem lengst hefur gegnt embættinu, eða í 6 ár og 3 mánuði. Næstur er Jón G. Baldvinsson sem var formaður um sex ára skeið á árunum 1986 – 1992

Sæmdur gullmerki félagsins á aðalfundi 2020.

Félagsmaður nr. 512, Edda Dungal, fædd 1948. Starfaði á skrifstofu SVFR frá 1995 – 2017. Sæmd gullmerki félagsins á árhátíð 2019.

Sigurjón Valdimarsson, fæddur 1937, sæmdur gullmerki félagsins 1996. Hann var bóndi á Glitstöðum í Norðurárdal um áratugaskeið og var formaður Veiðifélags Norðurár í nærri aldarfjórðung.

Þann 11.ágúst sl. Var gullmerkjahöfum Stangaveiðifélags Reykjavíkur boðið til veiða í Elliðaám. Alls eru sex gullmerkjahafar á lífi í dag og af þeim mættu fjórir til veiða.  Þau Guðrún Thorlacius, Jón G. Baldvinsson, Ólafur Kr. Ólafsson og Bjarni Júlíusson. Þess má geta að Guðrún varð 96 ára í júlí sl. og líklega einn elsti veiðimaður sem hefur mætt til veiða í þessum fallegu ám.

Á myndinni má sjá þá Ólaf Kr., Jón G Bald og Bjarna Júl. Þess má geta að það var talsvert líf þennan dag, en svo fór þó að einungis einum laxi var landað, en sett var í eina fimm til viðbótar sem ekki náðust.

Ljósmynd/Ólafur Kr. Ólafsson, Bjarni Júlíusson og Jón G. Baldvinsson

Stangveiði – Veiðin.is · Lesa meira

LaxFP

Hvar er laxinn?

AF HVERJU ER EKKI MEIRA AF LAXI?

 Staða Atlantshafslaxins er okkur mikið áhyggjuefni. Víða erlendis eru stofnar hans í sögulegri lægð og staðreynd að þar á maðurinn stærstu sök. Helstu orsökin eru talin vera; minnkun búsvæða vegna raforkuframleiðslu, eyðilegging búsvæða af mengun t.d. súru regni, ofveiði; m.a. sjávarveiði og áhrif fiskeldis vegna hættu á útbreiðslu sjúkdóma og erfðamengunar. 

     Hér á landi er ekki unnt að merkja hnignun laxastofna í sama mæli og víða erlendis. Þessu er unnt að þakka banni við veiðum á laxi í sjó, tiltölulega lítið hefur verið hróflað við búsvæðum laxfiska hérlendis og mengun er hér mjög lítil – þó menn vilji meina að hún hafi aukist með vaxandi fiskeldi. Þrátt fyrir þetta, er ljóst að miklar sveiflur einkenna laxgengd í íslenskar veiðiár, þá aðallega á Norður – og Austurlandi. Má rekja orskakir slíkra sveiflna til breytilegrar framleiðslu á laxaseiðum í fersku vatni og mjög breytilegra endurheimtna á laxi úr sjó. 

     Undanfarin ár hefur laxgengd almennt verið í lægð hérlendis. Á sama tíma hefur hlutfall stórlaxa (lax með tveggja ára sjávardvöl) lækkað og það bendir til aukinna affalla á öðru ári í sjó. Markvissar rannsóknir á lykilám sýna miklar stofnsveiflur á laxi og endurheimtur náttúrulegra laxaseiða hafa reynst frekar lágar. Margt bendir því til þess, að unnt sé að tengja þá lægð sem hefur ríkt í laxgengd hérlendis við aukin afföll laxa í hafi. 

Stuðs við grein: Össur Skarphéðinsson, 187/123 þáltill: rannsóknir á laxi í sjó [þingtíðindi] Alþingi  

BRENNAN OG ÍSIS – Stefnumót í Djúpinu 

 “Áin var vatnsmikil og vandalaust fyrir laxana að synda inn breitt ármynnið með grýttum og lágum árbökkum. Þeir voru ekki fyrr komnir í ána er þeir tóku að þefa af árbotninum, vaka og stökkva. Þeir voru komnir heim eftir mikla ferð þar sem langflest systkina þeirra höfðu týnt lífinu. Þeir voru hinir útvöldu”

     “Sá hópur laxa sem sneri heim minnkaði stöðugt. Fyrir þrjátíu árum hefðu líklega um fjórfalt fleiri fiskar náð heim í árnar við Atlandshaf. Það var engin ein haldbær skýring til á þessari fækkun en í flestum tilfellum var maðurinn líklegur sökudólgur. Ýmsir sjúkdómar sem rekja má til mengunar og fiskeldis herjuðu á laxa bæði í ám og í sjó. Loðna og önnur fæða laxins í sjónum hafði minnkað með auknum veiðum á sama tíma og selir, sem átu mikið af laxi, voru að mestu friðaðir; laxinn er ennþá veiddur í net sums staðar við Atlantshaf; eldislax kann að hafa ruglað náttúrulega laxastofninn og hitastig sjávarins hafði breyst. Maðurinn og það sem honum fylgdi hafði tekið sinn toll” 

Þór Sigfússon; Brennan og Ísis – Stefnumót í djúpinu, NASF verndarsjóður villtra laxastofna, Reykjavík 2001, Bókin er prentuð í Léttlandi, bls. 26 

Silungsveiði Ameríka

Cleveland-Skransalan

Okkur finnst eðlilegt að flest sem við kaupum fáist í stykkjatali og að hægt sé að selja nánast hvað sem er. Hér á eftir fer stuttur kafli úr bókinni Silungsveiði í Ameríku þar sem höfundurinn, Richard Brautigan, deilir á markaðshyggju með aðferðum fjarstæðustefnunnar. Þar er veiðiá á skransölu og er áin sjálf, umhverfi hennar og dýralíf á svæðinu allt til sölu í einingum. Þannig hlutgerir höfundur náttúruna.

En hvers virði er náttúran okkur? Erum við meðvituð um að víðsvegar, einnig hér á landi, er hættan sú að náttúran verði eða sé seld, jafnvel í einingum? Er það ekki á okkar ábyrgð að vernda hana svo að allir fái að njóta hennar um ókomna framtíð? Hvað með dýrmætu veiðiárnar okkar? Færi það ekki fyrir brjóstið á okkur stangveiðimönnum ef við sæjum okkar uppáhalds-veiðiá auglýsta til sölu, jafnvel í bútum?

En gefum Brautigan orðið og kynnumst ádeilu hans á markaðshyggjuna:

Hinumegin við bensínstöðina var Cleveland-Skransalan. Ég gekk þangað til að athuga með notuðu silungsána. Á framhlið Cleveland-Skransölunnar er mjög langur útstillingargluggi fullur af skiltum og vörum. 

   Í glugganum var skilti sem auglýsti vél til að setja þvottamerki á föt, til sölu á 65 dali. Annað skilti auglýsti nýja og notaða tveggja og þriggja tonna byggingarkrana. Á enn einu skilti stóð: 

Fjölskyldugjafamiðstöðin

Hugmyndir að gjöfum 

Fyrir alla fjölskylduna  

Þarna var líka stórt skilti sem á stóð: 

NOTUÐ SILUNGSÁ TIL SÖLU.

SJÓN ER SÖGU RÍKARI.

Ég gekk innfyrir og kíkti á  á nokkrar skipsluktir sem voru til sölu næst dyrunum. Síðan kom sölumaður upp að mér og sagði viðkunnanlegum rómi: “Get ég aðstoðað?” 

   “Já,” sagði ég. “Ég er að forvitnast um þessa silungsá sem þið hafið til sölu. Getur þú sagt mér eitthvað um hana. Hvernig seljið þið hana?” 

   “Við seljum hana í fetavís. Þú getur keypt eins lítið og þú vilt eða þú getur keypt allt sem við eigum eftir. Í morgun kom hingað maður og keypti 563 fet. Hann ætlar að gefa bróðurdóttur sinni hana í afmælisgjöf,” sagði sölumaðurinn. 

   “Við seljum fossana auðvitað sér og trén og fuglana, blóm, grös og byrkninga seljum við líka aukalega. Skordýrin eru ókeypis, kaupi menn meira en tíu fet af ánni.” 

   “Á hvað seljið þið ána?” spurði ég 

   “Sex og hálfan dal fetið,” sagði hann. “Það er fyrir fyrstu hundruð fetin. Eftir það eru það fimm dalir á fetið.” 

   “Hvað kosta fuglarnir?” spurði ég. 

   “Þrjátíu og fimm sent stykkið,” sagði hann. “En auðvitað eru þeir notaðir. Við getum ekki ábyrgst neitt.” 

   “Hvað er áin breið?” spurði ég. “Þú sagðir að þið selduð hana eftir lengd, eða hvað?” 

   “Já,” sagði hann. “Við seljum hana eftir lengd. Breiddin er á bilinu fimm til ellefu fet. Þú þarft ekki að borga neitt aukalega vegna breiddarinnar. Þetta er ekki vatnsmikil á, en hún er mjög falleg.” 

   “Hvernig dýr eruð þið með?” spurði ég. 

   “Við eigum bara þrjú dádýr eftir,” sagði hann. 

   “Ó….hvað um blóm?” 

   “Heilu vendina,” sagði hann

   “Er áin tær?” spurði ég

“Herra minn,” sagði sölumaðurinn. “Ég vil ekki að þú haldir að við myndum nokkru sinni selja hérna grugguga silungsá. Við göngum ávallt úr skugga um að þær séu kristaltærar áður en við jafnvel hugsum til þess að flytja þær.” 

   “Hvaðan er þessi á?” spurði ég. 

   “Frá Colorado,” sagði hann. “Við fluttum hana af einstakri varfærni. Enn höfum við ekki skemmt silungsá. Við meðhöndlum þær allar einsog þær væru postulín.” 

   “Sennilega er alltaf verið að spyrja þig um þetta, en hvernig er veiðin í ánni?” spurði ég. 

   “Mjög góð,” sagði hann “Aðallega venjulegir moldarurriðar, en svo eru nokkrir regnbogasilungar.”

   “Hvað kosta silungarnir?” spurði ég. 

   “Þeir fylgja ánni,” sagði hann. “Auðvitar spilar heppnin þar inn í. Þú veist aldrei hvað þú átt eftir að krækja í marga eða hvað þeir verða stórir. En þarna er góð veiði, það er jafnvel hægt að segja að hún sé frábær. Bæði á maðk og flugu,” sagði hann brosandi. 

   “Hvar er áin geymd?” spurði ég. “Ég vildi gjarnan líta á hana.” 

   “Hún er hérna bakatil,” sagði hann. 

Richard Brautigan; Silungsveiði í Ameríku, “Cleveland Skransalan”. Þýðing: Gyrðir Elíasson. Prentsmiðjan Oddi HF, Hörpuútgáfan 1992, bls. 162 – 165.