SVAK

Á ferðinni á bökkum Svarfaðardalsár

Þeim sem þykir fátt skemmtilegra en að veiða sjóbleikju sækja oft Eyjafjörðinn heim en um hann renna allmargar góðar sjóbleikjuár. Dugar þar að nefna Eyjafjarðará, Fjarðará (Ólafsfjarðará), Hörgá og Svarfaðardalsá. Eyjafjarðará var sú þeirra sem fékk lengi mesta athygli, en nú hefur dregið úr veiði vegna ástands sjóbleikjustofnsins og í raun í öllum ánum. Nú er sóknin í Eyjafjarðará nánast eingöngu bundin við eitt svæði, það fimmta. Aftur á móti, hefur sjóbleikja í Fjarðará, Hörgá og Svarfaðardalsá verið að fást víða í ánum. Sú staðreynd og hærri dagskvóti eykur þar sóknina. Þetta sumar hafa veðurfarslegar aðstæður gert það að verkum að Hörgá og Svarfaðardalsá, sem eiga það til að jökullitast, hafa verið veiðilegar dag eftir dag.   

Sú á sem gefið hefur mesta sumarveiði hingað til, miðað við skráningu, er Svarfaðardalsá. Hún er dragá, frekar köld og oft jökullituð á sumrin. Veiðisvæðið er um 35 km langt, skipt í 5 svæði og eru tvær stangir leyfðar á hverju þeirra. Sjóbleikjugöngur ná oftast hámarki í lok júlí og fyrstu tvær vikurnar af ágúst. Það getur svo sannarlega verið skemmtilegt að ganga um bakka Svarfaðardalsár eins og samantektin hér að neðan greinir frá. 

“Átti heilan dag í Svarfaðardalsá þann 9. ágúst, 3 og 5 svæði um morguninn og svo svæði 5 seinni partinn. Var mættur rétt eftir 7:00 og hóf veiðar ofarlega á svæði 5, neðan við bæina Göngustaði og Göngustaðakot. Þar rennur áin í kvíslum, veiðistaðirnir eru litlir og viðkvæmir sem gerir þetta allt svo heillandi. Tókst að setja í 5 fiska og náði 4 á land. Það kom nokkuð á óvart að einn þeirra reyndist sjóbirtingur sem veiðist sjaldan svona ofarlega í ánni. 

Frá efri hluta 5 svæðis lá leiðin svo alla leið niður á neðri hluta svæðis 3. Neðan við bæinn Grund eru nokkrir fínir staðir þar sem oft má finna göngufisk en nú var raunin önnur. Færði mig því ofar og byrjaði á því að kíkja á breiðu neðan við golfvöllinn. Varð ekki var þar en fékk svo tvær nokkuð ofar á fallegum veiðistöðum milli golfvallarins og bóndabæinn Bakka. Þar sem það var frekar lítið líf á neðri hluta svæðis 3 var best að halda ofar á staði ofan við Bakka og upp að mótum Svarfaðardalsár og Skíðadalsár. Best er að nálgast þá staði með því að fylgja vegi niður Tungurnar og leggja bíl sínum rétt ofan við ármótin. Þaðan er stutt vegalengd niður á efri hluta svæðis 3 þar sem finna má marga fína veiðistaði. Þarna gerast oft ævintýri og á leið minni náði ég 5 sjóbleikjum og var ein þeirra 55 cm.  

Á seinni vaktinni hófst veiðin neðan við Höfða, félagsheimili þeirra Svarfdælinga sem stendur við ána um mitt 5 svæði. Þaðan var ákveðið að fara í gönguferð niður með ánni og veiða alla þá staði sem á leið minni yrðu. Lítið var um fisk fyrr en komið var á veiðistaði neðan við Mela og að Hreiðarstöðum. Á þeim kafla náðust 6 fiskar, 5 bleikjur og einn urriði. Oft er það nú þannig að maður missir þá stærstu og það átti svo sannarlega við þarna. Stór bleikja sem lét ekki af stjórn og sleit hjá mér. En svakalega var þetta nú gaman. Nú var smá tími aflögu til að skoða staði rétt fyrir neðan brú en hafði ekki árangur sem erfiði”                

Að mestu var fiskurinn að taka kúlupúpur, helst PT afbrigði, Copper John, Rainbow Warrior og San Juan blóðorma. Einnig fengust nokkrar á hina öflugu Stirðu og var sú rauða sterkust. Allar þessar flugur fást hér á Veiðiheimum. 

Veiðileyfi í Svarfaðardalsá: veiditorg.is

Ljósmyndir/Veiðiheimar Kort/veiditorg.is

Heimild: Högni Harðarson

Uppstoppun

Með sama laxinn í 600 klukkustundir

Vagn Ingólfsson handverksmaður ákvað að skera út stórlax eins og þeir gerast flottastir á Íslandi. Eftir hátt í sex hundruð vinnustundir er verkið tilbúið af hálfu listamannsins en eftir er að sprauta fiskinn og verður það gert í Bandaríkjunum síðar í sumar.

Svona byrjaði þetta allt saman, með mynd og búið að saga út útlínur. Ljósmynd/Vagn Ingólfsson

mbl.is – Veiði · Lesa meira

Hnausþykkt Sportveiðiblað var að koma út!

Hnausþykkt Sportveiðiblað var að koma út!

„Þetta er glæsilegt blað,“ sagði Þorsteinn Bachmann leikari, þegar Gunnar Bender ritstjóri Sportveiðiblaðsins afhenti honum fyrsta eintakið af blaðinu, nýkomið úr prentvélinni. 

Forsíða 1. tbl 2023

Um er að ræða þykkt sumarblað sem inniheldur m.a. viðtöl við Þorstein Bachmann, stórleikara og Önnu Margréti Kristinsdóttur veiðikempu, ferðasögur til Rió Grande og Slóveníu, veiðistaðalýsingar um Skógá og Ytri-Rangá og ítarleg lýsing frá Hítará, skotveiðigrein um minkaveiðar og umfjöllun um veiðar af kayak. Margt fleira er í þessu fyrsta tölublaði ársins en blaðið fer í dreifingu næstu daga til áskrifenda og á sölustaði.

Þorsteinn Bachmann og Gunnar ritstjóri

Veiðar · Lesa meira

Fyrsta konan til formennsku hjá SVFR

Fyrsta konan til formennsku hjá SVFR

Ragnheiður Thorsteinsson verður næsti formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur og jafnframt fyrst kvenna til að gegna embættinu. Ekki vekur síður athygli að meirihluti stjórnar félagsins verður skipuð konum. Þó svo að aðalfundur SVFR verði ekki fyrr en 23. febrúar liggur fyrir að ofangreindar breytingar munu eiga sér stað.

Ljósmynd/Ragnheiður Thorsteinsson við Langá á góðum degi.

mbl.is – Veiði · Lesa meira

Digital StillCamera

Drauma veiðisvæðið! 

Ég er sennilega ekki nema svona meðal laxveiðimaður, þó mér hafi nú áskotnast að veiða í mörgum af betri laxveiðiám landsins. Nú í dag lætur maður sér það duga að dreyma um laxveiði í fínu ánum. Á þeim tíma þegar ég hafði nokkuð gaman af laxveiðinni fór ég víða um, fyrst með föður mínum og svo með vinum. Laxveiðiár eins t.d. Laxá í Aðaldal, Miðfjarðará, Ytri-Rangá, Víðidalsá, Blanda og Hofsá voru heimsóttar. Það var í Miðfirðinum sem ég fékk maríulaxinn minn, í Efri-Hlaupum í Austurá. Þar var ég með föður mínum, í einhverju tannlæknaholli. Það er akkúrat Austurá sem er drauma veiðisvæðið mitt. 

Flestir laxveiðimenn þekkja það mikla mannvirki sem byggt var á sínum tíma í Kambsfoss í Austurá. Þetta gerði það að verkum að lax gengur nú alla leið upp að Valfossi og eru á því svæði margir skemmtilegir veiðistaðir. Fyrir neðan Kambsfoss tekur við svokallaða Austurár gljúfur, sem er himnaríki líkast. Þar rekur hvern veiðistaðinn annan en þeir sem eru helst í minningunni eru Klettpollur (45) sem er ofarlega, stutt fyrir neðan fossinn, Myrkhylur (42), Brúnkuskurðspollur (37) og Laxpollur (35). Á öllum þessum veiðistöðum hef ég lent í ævintýrum.

Eins og maurar í gljúfrinu

Í sömu ferð og þegar ég landaði maríulaxinum mínum, náði ég laxi úr Klettpolli og þar lenti ég í hörkuveiði með þýskum vinum mínum árið 2006. Einn þeirra, Werner að nafni, fékk þá einnig 16 punda hrygnu í Myrkhyl sem ég háfaði eftir mikinn eltingarleik. Eitt sinn fékk ég svo það hlutverk að leiðsegja Englendingi sem hafði fengið lítið í ánni og var orðinn vonlítill, enda bara ein vakt eftir fyrir flugið heim. Hann átti Austurá neðan Kambsfoss og ég vissi nákvæmlega hvert ég ætlaði með hann. Við lögðum bílnum stutt frá veiðistaðnum Kerlingu og löbbuðum upp í Brúnkuskurðspoll. Það er stutt frá því að segja en þarna setti hann í þrjá smálaxa og landaði tveimur. Hann var í skýjunum en þetta átti bara eftir að verða betra. Fljótlega eftir að við komum niður að Laxpolli setti hann í smálax og landaði eftir snarpa viðureign. Svo gerðist lítið um stund og hann vildi hvíla sig og rétti mér stöngina. Ég varð fljótlega var ofarlega í hylnum, þungt hökk og það vakti áhuga Englendingsins. Með nýja flugu að vopni lagði hann til atlögu. Í þriðja kasti tók laxinn og rauk niður hylinn og fyrir stein. Línan var flækt og ég hikaði ekki að vaða úti til að losa hana. Það tókst, fjörugur laxinn dansaði smástund um hylinn en að lokum hafði Englendingurinn betur og landaði 13 punda hængi. 

Ok, ég viðurkenni það! Mig langar mikið aftur sama hvað það kostar

Veiðileiðsögn 2023

Veiðileiðsögn 2023

Í samstarfi við Landsamband Veiðifélaga hefur Ferðamálaskóli Íslands undanfarin 4 ár boðið upp á nám fyrir áhugasama aðila sem vilja gerast leiðsögumenn bæði innlendra og erlendra veiðimanna í ám og vötnum landsins. Veiðileiðsögunámið er hagnýtt og nýtist í senn starfandi leiðsögumönnum og áhugasömum aðilum sem áhuga hafa á að sinna slíkri leiðsögn. Námið gefur innsýn í grunnatriði og ítarlegri þætti er varða veiðileiðsagnarþjónustu. Sérfróðir leiðsögumenn kenna undirstöðuatriði stangveiða og sérfræðingar miðla fróðleik um fiskana er við sögu koma og vistfræði þeirra.

• Meðal kennsluefnis eru undirstöðuatriði er varða líffræði og lífshætti íslenskra ferskvatnsfiska. Meðal annars er fjallað um árstíðabundnar göngur fiska, gönguhegðun þeirra í ferskvatni og sjó og samspil þátta er koma við sögu.

• Farið er yfir þætti er varða umgengni leiðsögumanna við veiðimenn allt frá móttöku þeirra, til veiðanna og annara ráða er varða dvöl í veiðihúsum.

• Farið verður í tveggja daga ferð í Eystri Rangá þar sem tekin verður fyrir kasttækni með einhendum og tvíhendum.

• Lögð er áhersla á Skyndihjálp og áfallahjálp þar sem litið er sérstaklega til þátta er tengjast hættum við ár og vötn..

• Farið er yfir handtök er varða frágang á afla eftir veiði, blóðgun og flökun á fiski. Samhliða verður farið yfir grunnþætti sem varða meðhöndlun fiska með hliðsjón af „veiða og sleppa“ veiðihættinum.

• Allir leiðbeinendur hafa áratuga reynslu sem leiðsögumenn eða vísindamenn hver á sínu sviði.

• Námið er alls 130 stundir og fer bæði fram í kennslustofu og á bökkum Eystri Rangár.

Kennslan hefst miðvikudaginn 15. Febrúar Leiðbeinendur eru:
Þröstur Elliðason, fiskeldisfræðingur – Strengir
Kristján Friðriksson, veiðimaður og dálkahöfundur
Reynir Friðriksson, sjávarútvegsfræðingur – veiðileiðsögumaður
Fulltrúi frá Landsambandi veiðifélaga
Haraldur Eiríksson, Laxá í KjósBjörn Theodórsson, fiskeldisfræðingur og leiðsögumaður
Kristinn Helgason, Landsbjörg
Sindri Hlíðar, Fish Partners
Sigurður Héðinn, Siggi Haugur
Sigurkarl Stefánsson, fuglafræðingur
Sr. Bragi Skúlason

Ljósmynd/Þröstur Elliðason

Veiðar · Lesa meira

Bókakaffi

Fullt af flottum veiðibókum í Bókakaffinu

„Já við eigum til helling af flottum veiðibókum hérna hjá í Bókahaffinu í Ármúla fyrir veiðimenn á öllum aldri,“ sagði Guðjón Ragnar Jónasson en hann sýndi okkur hverja veiðibókina af annarri er við litum inn til hans í dag.

Engar alvöru veiðibækur koma út þessi jól sem fjalla eingöngu um veiði en þarna má sannarlega finna hinar og þessar bækur, bækur sem hafa ekki fengist um árabil og hægt er að gramsa í fram og til baka – eins og djúpum hyl.

„Hérna er t.d. Urriðadansinn eftir Össur Skarphéðinsson og fleiri góðar bækur,“ sagði Guðjón sem skrifaði Kindasögur með Aðalsteini Eyþórssyni fyrir ári síðan og sló svo sannarlega í gegn – rokseldist.

Guðjón Ragnar Jónasson sýnir okkur hillurnar fullar af flottum veiðibókum / Mynd GB

Veiðar · Lesa meira

Hlaðvarp

Engum þarf að leiðast

Veiðimenn geta huggað sig við að þótt ekki sé hægt að renna fyrir fiski þá er hægt að stytta biðina með því að hlusta á veiðitengd hlaðvörp. Nú hefur hlaðvarpið Þrír á stöng hafið göngu sína á ný en það hefur verið eitt vinsælasta veiðihlaðvarp landsins undanfarin misseri. Umsjónarmenn eru Hafsteinn Már Sigurðsson, Árni Kristinn Skúlason og Jón Stefán Hannesson.

„Já, við erum sko sannarlega byrjaðir aftur eftir góða pásu og erum mjög spenntir fyrir vetrinum,“ segir Hafsteinn og bætir við: „Í vetur ætlum við að hafa þetta hefðbundið að því leyti að talað verður við veiðifólk sem hefur frá mörgu að segja og er sérfrótt um ákveðin veiðisvæði, tækni eða annað sem tengist veiði. Til dæmis erum við búnir að ræða Þingvallavatn ítarlega í fyrstu þáttum vetrarins með algjörum sérfræðingum, þeim Jakobi Sindra Þórssyni og líffræðingnum Finni Ingimarssyni sem rannsakað hefur murtuna í þaula. Því miður eru niðurstöðurnar ekki mjög jákvæðar. 

Bæði styttra og lengri komnir veiðimenn ættu að geta lært nýja hluti í sportinu í gegnum þættina. Eitthvað verður líka um hnýtingar hjá okkur og við lofum ýmsum skemmtilegum uppákomum í vetur til að stytta biðina fram á vor“ segir Hafsteinn og bætir við að lokum: „Aveijó, veijó.“

Ljósmynd/Fjórir hressir, Gunnar Bender með Þremur á stöng en þeir eru komnir á fleygiferð

Veiðar · Lesa meira