Blöndukvíslar

Safariferð í Blöndukvíslar

Þær hafa svo sannarlega vakir eftirtekt veiðimanna, safaríferðirnar sem hann Óli “Dagbók Urriða” stendur fyrir í samstarfi við Fish Partner. Sú síðasta, þetta sumar, var 4 daga veiðiferð í Blöndukvíslar. Að sögn Óla “var hópurinn alveg einstaklega skemmtilegur og mikið hlegið”. Gist var í Áfanga en þar öll aðstaða til fyrirmyndar og gott starfsfólk. 

Óli sagði í gríni við hópinn “að markmiðið væri að ná 100 fiskum” og það stóðst. Eins og gengur og gerist á heiðum Íslands var stærð fiskana blönduð en fjölmargir flottir komu á land. Þar á meðal voru fiskar sem þóttu sérstakir fyrir viðkomandi veiðimenn, hvað varðar stærð, voru þeir fyrstu á þurrflugu eða þeir fyrstu í ákveðnum hyljum. 

Þeir smáu glöddu líka

Það gerði ferðina enn áhugaverðari að mikið sást af fálka og einnig voru ernir á sveimi. 

Árangursrík og vel heppnuð ferð og Óli sagði “Hlakka til að bæta við fleiri spennandi ferðum fyrir næsta tímabil” 

Ljósmyndir/Óli (Dagbók Urriða)

Frétt fengin af facebook síðu “Dagbók Urriða”

Phesant Tail

Lykkja í stað hnúts

Í einum af ferðum mínum í Laxá í Mývatnssveit, þegar ég hóf að stunda andstreymisveiði að kappi, lærði ég að veiða með lykkju. En hvað er nú það? 

Það var hann Gísli Rafn Árnason sem kenndi mér þetta “tricks”. Í stað þess að festa kúlupúpu með hnúti í tauminn er hún bundin í lykkju og látin vera laus þannig að hún geti færst fram og til baka. Þetta gefur henni aukið líf í vatni og líkist hún jafnvel lifandi agni. Þörf er á að nota sterkan taum, mæli með “fluorocarbon” en hef komist upp með að nota venjulegan Kamasan eða Seaguar. Oft, þá er ég með tvær flugur í einu og jafnvel báðar í lykkju.

Svínvirkar!        

Hörgá mynd3

Sjóbleikja – hvað er til ráða?

Bleikjustofnum heimsins fer fækkandi og víðast hvar eru stofnstærðir að minnka. Á Íslandi og í Noregi benda veiðitölur til mikils samdráttar í stofnum sjóbleikju. Á sama tíma eykst sókn í stangveiðar. Orsakir fækkunar bleikju eru hins vegar óljósar, þótt ekki skorti tilgátur. Á mörgum vatnasvæðum varð afgerandi breyting á tegundasamsetningu, samhliða fækkun bleikjunnar. Félagasamtökin Bleikjan-styðjum stofninn eru nýstofnuð velferðarsamtök um bleikjustofna á Íslandi. Markmið samtakanna er að gæta hagsmuna bleikjunnar og finna orsök fækkunar, einkum í þeim stofnum sem teljast vera í útrýmingarhættu. Fyrir stuttu héltu samtökin fund með aðlilum úr öllum helstu veiðifélögum í Eyjafirði. Þar var lagt á ráðin um hvað gera má til að styrkja stöðu sjóbleikjunnar.

Samanburður við önnur lönd

Við eru nokkurn veginn á pari við Noreg og staðan ekki ólík því sem er að gerast í öðrum Norðurlöndum. Gera má ráð fyrir að náttúruleg skilirði, loftslagsbreytingar, eigi þarna megin orsökina.  Noregur á sennilega í höggi við fleiri áhrifavalda en við, t.d. mengun frá stóriðju eins og fiskeldi. Fróðlegt væri að skoða hvort aðrir eða svipaðir þættir, líkt og við glýmum við hér heima, séu einnig áhrifavaldar hnignunarinnar í Noregi og víðar. 

 

Þessi samantekt sýnir að hnygnunin tekur mikið flug árin 2004 – 2007 (Fiskirannsóknir 2020)

Netaveiði hlunnindajarða í Eyjafirði

Öll umsýsla um netaveiði hlunnindajarða er mjög brotakennd og óljóst hversu víðtækar þær heimildir eru. Það kemur á óvart að ekki sé haldið utanum skráningu á afla og að ekki sé settur neinn kvóti. Í Eyjafirði er um 50 jarðir sem hafa netaréttindi og sennilega nýta flestar þeirra hlunnindin að litlu eða engu leyti. Hins vegar er vitað að til eru einstaklingar sem eru stórtækir í netaveiðinni. Óskandi væri að stigið yrði skref í að koma þessum veiðum í betri umsýslu og er það í höndunum á Fiskistofu.

Veiði á smábátum

Sportbátum hefur fjölgað á firðinum. Þannig er þó að allar sjóbleikjuveiðar smábáta hvort sem það er á Pollinum í Eyjafirði eða annars staðar eru einfaldlega bannaðar með lögum en samt virðist ekki vera neitt lát á þeim. Raunin hefur sýnt að þetta séu um 10-20 aðilar sem  standa að þessum veiðum á Pollinum. Þessu þarf að fylgja fastar eftir. Veiðivörður hefur rétt samkvæmt lögum til að gera veiðarfæri og afla upptæk ef hann stendur einhvern að þessum veiðum. Það þarf greinilega að efla veiðivörslu og komin er upp sú hugmynd að veiðifélögin í firðinum sameinist um að ráða veiðvörð sem sinnir öllum ánum í Eyjafirði. Stangveiði frá landi er í boði á Pollinum öllum að kostnaðarlausu en fólk þarf þó að nálgast veiðileyfi á vefsíðu eyjafjarðara.is

Ungur og efnilegur veiðimaður við Pollinn á Akureyri (Gunnar B. Föstudaginn 14. júní 2019)

Malartekja við eða í ám

Eðlilega hafa menn af þessu áhyggjur. Þannig er að hver sá sem ætlar í malartekju við sjóbleikjuá þarf að hafa til þess tilskilin leyfi frá Fiskistofu og þau fást ekki nema hann fái samþykkta umsókn og jákvæða umsögn sem oftast er unnin af fiskifræðingum. Það er í þeirra höndum að meta áhrif malartekjunnar á búsvæði og að vinna umsögnina með það að leiðarljósi að fiskurinn sé alltaf látinn njóta vafans. Gera þar úttekt á framkvæmdarsvæðinu fyrir og eftir aðgerðir. Það er kostur að þeir aðilar sem sjá um að leggja þetta mat á malartekju séu búsettir í nánd við framkvæmdasvæðið því þá er eftirfylgnin auðveldari á allan hátt.

Kvóti og friðun svæða

Kvótaskerðing virðist í flestum tilfellum virka og dæmi um það er Eyjafjarðará. Nú hafa önnur veiðifélög fetað í fótspor Veiðifélags Eyjafjarðarár en það á eftir að koma í ljós hvort það skili árangri. Sú hugmynd hefur komið fram að samrýma kvóta í öllum ánum, spurning hvort það verði að veruleika. Skoða má þá leið að draga úr álagi þar sem bleikja bunkast upp. Gott dæmi um þetta er Bægisárhylurinn í Hörgá. Ein leið er kvótaskerðing en einnig mætti fækka stangardögum t.d. veiða barar 4 daga vikunnar. Það er einnig ekki svo fráleitt að skoða gerð breytinga á veiðistaðnum sjálfum, svo fiskur komist leiða sinna, ofar í kerfið.

Falleg sjóbleikja hefur tekið fluguna á svæði 4 í Eyjafjarðará (Ljósmynd/HH)
Seiði

Fæðu – og óðalsatferli ungra laxfiska

Hér á landi lifa þrjár tegundir íslenskra laxfiska, bleikja (Salvelinus alpinus), urriði (Salmo trutta) og lax (Salmo salar). Þær nýta sér þau fjölbreyttu búsvæði sem íslenskar ár hafa upp á að bjóða; ólíkan vatnshita, framleiðni og straumlag. Ráðast þessir umhverfisþættir einkum af aldri og gegndræpi berggrunnsins þar sem árnar renna, gróðri á vatnasviði þeirra og hvort í þær renni jökulvatn. Tegundirnar þrjár gera ólíkar kröfur til þessara umhverfisþátta. Bleikjan velur að vera á lygnum búsvæðum og þrífst best í kaldari og næringarsnauðari ám. Laxinn velur straumharðari búsvæði og er ríkjandi í hlýjustu og frjósömustu ánum. Urriði á það svo til að nýta sér búsvæði sem liggja á milli hinna tegundanna tveggja hvað varðar þessa umhverfisþætti. Lítið hefur verið fengist við að kanna hvernig atferli þessara fiska tengist búsvæðanotkun þeirra eða útbreiðslu hérlendis. 

Seiði laxfiska sýna mikinn einstaklings-, stofna- og tegundabreytileika í atferli við fæðunám og varnir óðala. Í lygnu vatni þurfa fiskar að hafa fyrir því að leita að fæðu, því lítið er af fæðu sem er á reki. Hins vegar, þá geta fiskar í miklum straumi sparað sér orku með því að halda kyrru fyrir og nýtt sér þá fæðu sem berst með straumnum. Seiði laxfiska helga sér oft óðul til að tryggja sér aðgang að nægilegri fæðu. Þau verja þau með því að ráðast á aðra laxfiska, oft í útjaðri svæðisins. Mikil orka fer í að verja stór óðul, því er talið að þegar fæðuframboð er drjúgt láti seiði sér nægja smærri óðul sem auðveldara er að verja. Því ræðst af því sem vitað er um búsvæðanotkun laxfiska að af íslensku tegundunum þremur hreyfi bleikja sig mest við fæðuleit og verji stærri óðul en bæði urriði og lax. Stærri fiskar eru taldir þurfa stærri óðul til að tryggja sér nægja fæðu. Einnig verja fiskar minni óðul þar sem samkeppni er meiri vegna aukinnar vinnu við varnir þeirra. 

Rannsókn, gerð hérlendis, sýndi að bleikja hreyfir sig meira við fæðuleit (27% leitartímans) en bæði urriði (13%) og lax (12%). Eru þessar niðurstöður í samræmi við það að hreyfanleiki við fæðuleit er talinn minnka með auknum straumhraða. Bleikja nýtir sér lygnasta vatnið og laxinn mesta strauminn. Því meira sem straumhraði eykst frá stöðuvötnum til straumvatna og frá lygnari til straumharðari búsvæða í ám, dregur úr hreyfanleika seiða laxfiska við fæðuleit.  

Í annarri rannsókn sýndu Bleikja og urriði óðalsatferli sem er að mestu í samræmi við búsvæðanotkun tegundanna og hugmyndir manna um áhrif vistfræðilegra þátta á óðalstærð. Bleikja er hreyfanlegri við fæðunám en urriði og helgar sér því stærra svæði. Þennan mun í óðalsstærð má ef til vill útskýra með því að bleikja er almennt aðlöguð að lægri straumhraða og næringarsnauðara umhverfi en urriði. Auðið fæðuframboð gerir það þó að verkum að óðul dragast saman.

Stærri fiskar helguðu sér stærri óðul, sem er í samræmi við margar fyrri rannsóknir. Ef óðul stækka í takt við það sem einstaklingar í hverjum árgangi vaxa, eða fæðuframboð dregst saman, getur það leitt til náttúrulegrar grisjunnar í villtum stofnum, ef keppt er um takmarkað rými og fæðu. Við mikla mettun búsvæða verja bleikjur ekki óðul sín á skilvirkan hátt og deila þeim með öðrum einstaklingum, þá oftast af sömu tegund. 

Stefán Ó.Steingrímsson, Tunney T.D. & Guðmundur S. Gunnarsson “Fæðu- og óðalsatferli ungra laxfiska í íslenskum ám” Náttúrufræðingurinn 85. árg. 1.-2. hefti 2015, Ísafoldarprentsmiðja ehf, bls. 28 – 33.