Hörgá mynd3

Sjóbleikja – hvað er til ráða?

Bleikjustofnum heimsins fer fækkandi og víðast hvar eru stofnstærðir að minnka. Á Íslandi og í Noregi benda veiðitölur til mikils samdráttar í stofnum sjóbleikju. Á sama tíma eykst sókn í stangveiðar. Orsakir fækkunar bleikju eru hins vegar óljósar, þótt ekki skorti tilgátur. Á mörgum vatnasvæðum varð afgerandi breyting á tegundasamsetningu, samhliða fækkun bleikjunnar. Félagasamtökin Bleikjan-styðjum stofninn eru nýstofnuð velferðarsamtök um bleikjustofna á Íslandi. Markmið samtakanna er að gæta hagsmuna bleikjunnar og finna orsök fækkunar, einkum í þeim stofnum sem teljast vera í útrýmingarhættu. Fyrir stuttu héltu samtökin fund með aðlilum úr öllum helstu veiðifélögum í Eyjafirði. Þar var lagt á ráðin um hvað gera má til að styrkja stöðu sjóbleikjunnar.

Samanburður við önnur lönd

Við eru nokkurn veginn á pari við Noreg og staðan ekki ólík því sem er að gerast í öðrum Norðurlöndum. Gera má ráð fyrir að náttúruleg skilirði, loftslagsbreytingar, eigi þarna megin orsökina.  Noregur á sennilega í höggi við fleiri áhrifavalda en við, t.d. mengun frá stóriðju eins og fiskeldi. Fróðlegt væri að skoða hvort aðrir eða svipaðir þættir, líkt og við glýmum við hér heima, séu einnig áhrifavaldar hnignunarinnar í Noregi og víðar. 

 

Þessi samantekt sýnir að hnygnunin tekur mikið flug árin 2004 – 2007 (Fiskirannsóknir 2020)

Netaveiði hlunnindajarða í Eyjafirði

Öll umsýsla um netaveiði hlunnindajarða er mjög brotakennd og óljóst hversu víðtækar þær heimildir eru. Það kemur á óvart að ekki sé haldið utanum skráningu á afla og að ekki sé settur neinn kvóti. Í Eyjafirði er um 50 jarðir sem hafa netaréttindi og sennilega nýta flestar þeirra hlunnindin að litlu eða engu leyti. Hins vegar er vitað að til eru einstaklingar sem eru stórtækir í netaveiðinni. Óskandi væri að stigið yrði skref í að koma þessum veiðum í betri umsýslu og er það í höndunum á Fiskistofu.

Veiði á smábátum

Sportbátum hefur fjölgað á firðinum. Þannig er þó að allar sjóbleikjuveiðar smábáta hvort sem það er á Pollinum í Eyjafirði eða annars staðar eru einfaldlega bannaðar með lögum en samt virðist ekki vera neitt lát á þeim. Raunin hefur sýnt að þetta séu um 10-20 aðilar sem  standa að þessum veiðum á Pollinum. Þessu þarf að fylgja fastar eftir. Veiðivörður hefur rétt samkvæmt lögum til að gera veiðarfæri og afla upptæk ef hann stendur einhvern að þessum veiðum. Það þarf greinilega að efla veiðivörslu og komin er upp sú hugmynd að veiðifélögin í firðinum sameinist um að ráða veiðvörð sem sinnir öllum ánum í Eyjafirði. Stangveiði frá landi er í boði á Pollinum öllum að kostnaðarlausu en fólk þarf þó að nálgast veiðileyfi á vefsíðu eyjafjarðara.is

Ungur og efnilegur veiðimaður við Pollinn á Akureyri (Gunnar B. Föstudaginn 14. júní 2019)

Malartekja við eða í ám

Eðlilega hafa menn af þessu áhyggjur. Þannig er að hver sá sem ætlar í malartekju við sjóbleikjuá þarf að hafa til þess tilskilin leyfi frá Fiskistofu og þau fást ekki nema hann fái samþykkta umsókn og jákvæða umsögn sem oftast er unnin af fiskifræðingum. Það er í þeirra höndum að meta áhrif malartekjunnar á búsvæði og að vinna umsögnina með það að leiðarljósi að fiskurinn sé alltaf látinn njóta vafans. Gera þar úttekt á framkvæmdarsvæðinu fyrir og eftir aðgerðir. Það er kostur að þeir aðilar sem sjá um að leggja þetta mat á malartekju séu búsettir í nánd við framkvæmdasvæðið því þá er eftirfylgnin auðveldari á allan hátt.

Kvóti og friðun svæða

Kvótaskerðing virðist í flestum tilfellum virka og dæmi um það er Eyjafjarðará. Nú hafa önnur veiðifélög fetað í fótspor Veiðifélags Eyjafjarðarár en það á eftir að koma í ljós hvort það skili árangri. Sú hugmynd hefur komið fram að samrýma kvóta í öllum ánum, spurning hvort það verði að veruleika. Skoða má þá leið að draga úr álagi þar sem bleikja bunkast upp. Gott dæmi um þetta er Bægisárhylurinn í Hörgá. Ein leið er kvótaskerðing en einnig mætti fækka stangardögum t.d. veiða barar 4 daga vikunnar. Það er einnig ekki svo fráleitt að skoða gerð breytinga á veiðistaðnum sjálfum, svo fiskur komist leiða sinna, ofar í kerfið.

Falleg sjóbleikja hefur tekið fluguna á svæði 4 í Eyjafjarðará (Ljósmynd/HH)
Seiði

Fæðu – og óðalsatferli ungra laxfiska

Hér á landi lifa þrjár tegundir íslenskra laxfiska, bleikja (Salvelinus alpinus), urriði (Salmo trutta) og lax (Salmo salar). Þær nýta sér þau fjölbreyttu búsvæði sem íslenskar ár hafa upp á að bjóða; ólíkan vatnshita, framleiðni og straumlag. Ráðast þessir umhverfisþættir einkum af aldri og gegndræpi berggrunnsins þar sem árnar renna, gróðri á vatnasviði þeirra og hvort í þær renni jökulvatn. Tegundirnar þrjár gera ólíkar kröfur til þessara umhverfisþátta. Bleikjan velur að vera á lygnum búsvæðum og þrífst best í kaldari og næringarsnauðari ám. Laxinn velur straumharðari búsvæði og er ríkjandi í hlýjustu og frjósömustu ánum. Urriði á það svo til að nýta sér búsvæði sem liggja á milli hinna tegundanna tveggja hvað varðar þessa umhverfisþætti. Lítið hefur verið fengist við að kanna hvernig atferli þessara fiska tengist búsvæðanotkun þeirra eða útbreiðslu hérlendis. 

Seiði laxfiska sýna mikinn einstaklings-, stofna- og tegundabreytileika í atferli við fæðunám og varnir óðala. Í lygnu vatni þurfa fiskar að hafa fyrir því að leita að fæðu, því lítið er af fæðu sem er á reki. Hins vegar, þá geta fiskar í miklum straumi sparað sér orku með því að halda kyrru fyrir og nýtt sér þá fæðu sem berst með straumnum. Seiði laxfiska helga sér oft óðul til að tryggja sér aðgang að nægilegri fæðu. Þau verja þau með því að ráðast á aðra laxfiska, oft í útjaðri svæðisins. Mikil orka fer í að verja stór óðul, því er talið að þegar fæðuframboð er drjúgt láti seiði sér nægja smærri óðul sem auðveldara er að verja. Því ræðst af því sem vitað er um búsvæðanotkun laxfiska að af íslensku tegundunum þremur hreyfi bleikja sig mest við fæðuleit og verji stærri óðul en bæði urriði og lax. Stærri fiskar eru taldir þurfa stærri óðul til að tryggja sér nægja fæðu. Einnig verja fiskar minni óðul þar sem samkeppni er meiri vegna aukinnar vinnu við varnir þeirra. 

Rannsókn, gerð hérlendis, sýndi að bleikja hreyfir sig meira við fæðuleit (27% leitartímans) en bæði urriði (13%) og lax (12%). Eru þessar niðurstöður í samræmi við það að hreyfanleiki við fæðuleit er talinn minnka með auknum straumhraða. Bleikja nýtir sér lygnasta vatnið og laxinn mesta strauminn. Því meira sem straumhraði eykst frá stöðuvötnum til straumvatna og frá lygnari til straumharðari búsvæða í ám, dregur úr hreyfanleika seiða laxfiska við fæðuleit.  

Í annarri rannsókn sýndu Bleikja og urriði óðalsatferli sem er að mestu í samræmi við búsvæðanotkun tegundanna og hugmyndir manna um áhrif vistfræðilegra þátta á óðalstærð. Bleikja er hreyfanlegri við fæðunám en urriði og helgar sér því stærra svæði. Þennan mun í óðalsstærð má ef til vill útskýra með því að bleikja er almennt aðlöguð að lægri straumhraða og næringarsnauðara umhverfi en urriði. Auðið fæðuframboð gerir það þó að verkum að óðul dragast saman.

Stærri fiskar helguðu sér stærri óðul, sem er í samræmi við margar fyrri rannsóknir. Ef óðul stækka í takt við það sem einstaklingar í hverjum árgangi vaxa, eða fæðuframboð dregst saman, getur það leitt til náttúrulegrar grisjunnar í villtum stofnum, ef keppt er um takmarkað rými og fæðu. Við mikla mettun búsvæða verja bleikjur ekki óðul sín á skilvirkan hátt og deila þeim með öðrum einstaklingum, þá oftast af sömu tegund. 

Stefán Ó.Steingrímsson, Tunney T.D. & Guðmundur S. Gunnarsson “Fæðu- og óðalsatferli ungra laxfiska í íslenskum ám” Náttúrufræðingurinn 85. árg. 1.-2. hefti 2015, Ísafoldarprentsmiðja ehf, bls. 28 – 33. 

Stirða rauð

Bestar í sjóbleikjuna

Það er fátt skemmtilegra en að kljást við nýgengna sjóbleikju. Á Íslandi má finna frábærar sjóbleikjuár og á Tröllaskaga og í Eyjafirði eru nokkrar af betri sjóbleikjuám landsins. Má nefna Hjaltadalsá & Kolku, Hrolleifsdalsá, Flókadalsá og Fljótaá í Fljótum, sem einnig er þekkt fyrir góða laxveiði. Í Eyjafjörð renna Ólafsfjarðará, Svarfaðardalsá, Hörgá og Eyjafjarðará. Flestar voru þessar ár að gefa um eða yfir 1000 bleikjur þegar vel lét. Eyjafjarðará var sér á báti og gaf oftast yfir 2000 bleikjur og nokkur sumur yfir 3000. En staðan er því miður sú að sjóbleikjan á undir högg að sækja og nú veiðist í sumum af þessum ám einungis þriðjungur og allt upp í tífalt minna en gerði áður.

Falleg sjóbleikja af 5 svæði í Eyjafjarðará (mynd/HH)

Að veiða andstreymis með kúlupúpum hefur verið mest notaða aðferðin í sjóbleikjuveiði frá því árið 2005. Þó ekki sé hægt að staðfesta það, er sennilegt að notkun aðferðarinnar eigi eitthvern þátt í því hvernig komið er fyrir sjóbleikjunni víða. Staðreyndin er nefnilega sú að með henni fara veiðimenn að ná stóru bleikjunum “kusunum” og hér fyrr á árum var enginn kvóti. Þótti það þá sport að koma heim með stærstu sjóbleikjurnar. Sumarið 2006 voru 74% þeirra sjóbleikja, 2 kg og yfir, sem veiddust á svæði 5 í Eyjafjarðará teknar andstreymis á kúlupúpur (Högni H “Eyjafjarðará, Sjóbleikjuparadís?” powerpoint kynning 2010). Hvernig skildi þetta hafa verið undanfarin ár?   

Það sem árnar eiga sameiginlegt er að í nánast öllum þeirra eru sömu flugurnar að fanga mestu veiðina. Í úrtaki, sem sýnir 18 mest notuðu flugurnar í Eyjafjarðaránum árin 2008 – 2020, eru samt sem áður straumflugur talsvert áberandi. Sennilega eru þær talsvert meira notaðar í skoluðu ánum, bæði Hörgá og Svarfaðardalsá.    

Nafn fluguFjöldiNafn fluguFjöldi
Krókurinn1109Blóðormur147
Stirða925Black Ghost95
Pheasant Tail781Peacock94
Nobbler51290
Anna Sonja289Rollan88
Heimasæta271Beykir82
Bleik & Blá266Kúluhaus79
Mýsla184Púpa 76
Dýrbítur166Grey Ghost 66
Unnið af Fiskirannsóknum efh upp úr tölum sem fengnar voru af veiditorgi.is
Breiðdalsá veiði

Silungsveiðiár á Austurlandi

Á Austurlandi renna margar skemmtilegar veiðiár til sjávar og má segja að þarna sé paradís stangveiðimannsins. Þeir sem velja það að stunda laxveiði hafa þann kost að fara í Jöklu og hliðarár hennar eða þá í Vopnafjörðinn, þar sem tvær af bestu laxveiðiám landsins renna. En á Austurlandi eru fjölmargar silungsveiðiár þar sem aðallega veiðist bleikja, þó urriði finnist einnig víða. 

Ein af betri sjóbleikjuám landsins er Norðfjarðará í Norðfirði, stutt frá Neskaupstað. Hún á sér trygga aðdáendur og eru leyfi oftast uppseld þegar líða fer á vorið. Ekki er óalgengt að veiðin sé þetta 700 – 800 bleikjur á sumri og eru þær flestar um 1 – 2 pund. Besti tíminn er júlí og fram í ágúst. Það að efsti kafli árinnar séu friðaður hefur gefið góða raun. 

Stutt frá Norðfjarðará eru Eskifjarðará, Sléttuá í Reyðarfirði og svo Dalsá í Fáskrúðsfirði. Í öllum þessum ám er sjóbleikja, þó það megi nú segja að þær fyrst nefndu hafi verið stórlega spilltar með malartekju. Í Eskifjarðará veiðist nú aðallega í ósnum, en einnig má fá fiska á veiðistöðum inn af eyðibýlinu Eskifjarðarseli. Í Sléttuá er mest veitt fyrir landi jarðarinnar Sléttu, en einnig getur verið fín veiði inn af Melshorni þar sem árnar úr Skógdal og Þórsdal renna í Sléttuá. Besti tíminn er svipaður og í Norðfjarðará, stærstu bleikjurnar koma í júlí og þær smærri í ágúst.  

Fallegur veiðistaður í Dalsá

Dalsá í Fáskrúðsfirði er lagleg dragá og meira stunduð en Sléttuá og Eskifjarðará. Stærð bleikjunnar er þó svipuð, getur verið upp í 3-4 pund. Í Dalsá veiðist einnig eitthvað af laxi. Stutt frá Dalsá er Tungudalsá en í henni er einnig sjóbleikja. Hún hefur þann galla að breyta sér töluvert á milli ára, vegna mikilla hlaupa sem eru tíð. Þó virðast nokkrir veiðistaðir halda sér árlega og þar má fá bleikju af sömu stærð og í Dalsá. Báðar árnar er með ófiskgengum fossum og er Tungudalsá aðeins fiskgeng um 4 km.     

Í Breiðdalsá, sem er orðin vinsæl hjá hópum, er boðið upp á vorveiði og glæsilega gistiaðstöðu frá 1. maí. Veiðin fer fram á neðsta hluta árinnar, þar sem aðallega er að finna sjóbleikju en einnig einstaka sjóbirting og lax. Yfir sumartíman má svo sækja inn á dal, ofan við fossinn Beljanda, og kasta fyrir staðbundinn urriða. Hann er einnig að finna ofarlega í Norðurdalsá, sem sameinast Tinnudalsá og eru hluti af vatnakerfi Breiðdalsá. Á þessum tíma geta menn fengið gistingu í veiðihúsinu, eða þá í gistigámum rétt við veiðihúsið með afnot af baðherbergi. 

Fjarðará í Borgarfirði, þarna leynast fallegar bleikjur

Þá ber næst að nefna þær fjölmörgu ár sem bera nafnið Fjarðará. Ein er í Borgarfirði Eystri, önnur í Loðmundarfirði og enn önnur í Seyðisfirði. Sú fyrst nefnda, er ásamt hliðará sinni Þverá, drjúg sjóbleikjuveiðiá. Þær eiga vaxandi vinsældum að fagna, en eru kannski heldur út úr alfara leið. Til að gera langa sögu stutta, þá er sú Fjarðará sem rennur um Loðmundarfjörð einungis nýtt af landeigendum. Vinsælust er Fjarðará í Seyðisfirði. Hún að upptök sín á Fjarðarheiði og rennur neðsti hluti hennar í gegnum kaupstaðinn. Í henni er góð sjóbleikja, talsvert af 2-3 punda fiskum en þó mest í kringum pundið. Hún hentar vel fyrir fluguveiði, enda með fjölbreytt úrval veiðistaða. Besta veiðin er talin vera síðsumars. 

Ekki ýkja langt frá Egilsstöðum eru veiðisvæði Selfljóts og Gilsár. Þetta er vinsælt veiðisvæði, enda veiðistaðir fjölbreyttir og ekki skemmir að Dyrfjöll og Beinageitarfjall tróna yfir þeim. Á miðsvæðum árinnar má finna hvort tveggja bleikju og urriða, ágætan fisk en stærstu bleikjurnar er þó að finna í Gilsá og einnig í Bjarglandsá. Þegar líður á sumarið má þar einnig fá lax. Smá keyrsla er að ósasvæði árinnar en þar er boðið upp á vorveiði á bleikju og sjóbirtingi. Þó aðeins um helgar og er veiðitíminn sveigjanlegur í 12 klst á sólarhring. Annars þá opna svæðin 20. júní og í byrjun júlí. Veiðisvæði sem hefur margt uppá að bjóða fyrir allar gerðir veiðimanna. 

Veiðisvæði Selfljóts eru fjölbreytt og spennandi, mynd af 5 svæði

Fögruhlíðarós er annað rómað sjóbleikjusvæði þar sem veiða má inn í nóttina. Þar hafa veiðimenn upplifað hreint magnaða veiði með flugustöng að vopni. Sjóbirtingur sveimar einnig um svæðið í einhverju mæli og einn og einn lax. Ofar í ánni eru ágætis urriða mið.  

Að lokum ber að nefna nokkrar ár þar sem urriði veiðist í meira mæli eða eingöngu. Múlaá fellur úr Skriðuvatni í Suðurdal. Í vatninu er hvort tveggja bleikja og urriði, en einungis urriði í ánni. Veiði er leyfð efst í Múlaá, þar sem hún verður til úr hálfgerðu lóni sem fellur úr Skriðuvatni. Þarna veiðast vænir urriðar. Svæðið er hluti af Veiðikortinu og stutt frá þjóðvegi eitt. Kelduá er dragá í Fljótsdalshreppi og á upptök sín í Kelduárvatni. Í henni er mikið af urriða, fremur smáum en gaman að kljást við hann á léttan búnað. Þarna var á sínum tíma góð bleikjuveiði, en hún er að mestu leyti horfin. Í Kelduá eru nokkrir álitlegir veiðistaðir og er sá vænlegasti, Hrakhamarshylur, neðan við bæinn Víðivelli. Aðeins 12 km frá Egilsstöðum er Rangá sem kemur úr Sandvatni og rennur í Lagarfljót. Eins og í Kelduá, er það aðallega smár urriði sem veiðist og þá aðallega í uppánni. Á árum áður var mikil bleikjuveiði í ánni og þá sérstaklega þar sem hún rennur í Lagarfljót. Nú er sagan önnur, en veiðin spilltist við virkjunarframkvæmdir að Kárahnjúkum. Rangá er fiskgeng upp að fossi, en þar eru veiðistaðir í gili sem erfitt er að nálgast. En neðar eru margir fallegir hyljir og er þekktasti veiðistaðurinn, Árkrókur, í beygju þar sem Merkjalækur rennu í ána.   

Hörgá mynd6

Félagasamtökin Bleikjan

Bleikjustofnum heimsins fer fækkandi og víðast hvar eru stofnstærðir að minnka. Á Íslandi og í Noregi benda veiðitölur til mikils samdráttar í stofnum sjóbleikju. Á sama tíma eykst sókn í stangveiðar. Eitt skýrasta dæmið er bleikjustofninn í Eyjafjarðará, þar sem sókn jókst jafnt og þétt til ársins 2001 en eftir það verður algjört hrun í stofninum.Orsakir fækkunar bleikju eru hins vegar óljósar, þótt ekki skorti tilgátur. Á mörgum vatnasvæðum varð afgerandi breyting á tegundasamsetningu, samhliða fækkun bleikjunnar.  

Félagasamtökin Bleikjan eru nýstofnuð velferðarsamtök um stofn bleikju á Íslandi. Markmið samtakanna er að gæta hagsmuna bleikjunnar og finna orsök fækkunar, einkum í þeim stofnum sem teljast vera í útrýmingarhættu. 

Sannkölluð stórbleikja, en þeim fer fækkandi

​Bleikjustofnar Íslands hafa átt undir högg að sækja síðustu áratugi og almennt hefur stofnstærð staðbundinnar bleikju og sjóbleikju farið minnkandi. 

Dæmi um samdrátt í staðbundnum bleikjustofni er stofninn í Mývatni en hrun var í bleikjustofninum árið 1988 og aftur árið 1997. Ljóst er að bleikjustofninn í Mývatni var orðinn verulega lítill og gilda enn strangar veiðitakmarkanir í vatninu. Veiði á sjóbleikju hefur sömuleiðis farið minnkandi í flestöllum landshlutum. Í gegnum árin hefur veiðin verið mest á Norðvesturlandi, en hefur nær stöðugt farið minnkandi síðustu 20 árin. Árið 2001 veiddust um 40.000 bleikjur á stöng á Íslandi en árið 2018 var heildarveiðin rúmlega 27.000 bleikjur.

Samtökin ætla að fræða almenning um stöðu bleikjustofnsins almennt og meta aðgerðir til að styrkja stöðu þeirra. 

Stangveiðimenn og veiðiréttarhafar hafa brugðist við með því að minnka afföll bleikju vegna stangveiða, þ.e. víða hefur verið settur á strangur kvóti, til að halda veiðidauða í lágmarki.

Á sama tíma eru heimilar netaveiðar í sjó.Til eru sagnir um gríðarlega veiði á bleikju í þau net. Í sumum tilvikum gæti netaveiðin numið meiru en því sem veiðist á stöng á viðkomandi vatnasvæði.