GunniB

Benderinn orðinn „síðasti Móhíkaninn“

Gunnar Bender, ritstjóri Sportveiðiblaðsins, er að vinna að nýrri veiðiþáttaseríu fyrir sjónvarpsstöðina Hringbraut. Stefnt er því að því þættirnir fari í loftið í febrúarlok. Serían ber heitið Veiðin með Gunnari Bender og eru spennandi gestir og veiðistaðir í þessari seríu.

Ljósmynd/María Gunnarsdóttir

mbl.is – Veiði · Lesa meira

Breiðdalsá veiði

Silungsveiðiár á Austurlandi

Á Austurlandi renna margar skemmtilegar veiðiár til sjávar og má segja að þarna sé paradís stangveiðimannsins. Þeir sem velja það að stunda laxveiði hafa þann kost að fara í Jöklu og hliðarár hennar eða þá í Vopnafjörðinn, þar sem tvær af bestu laxveiðiám landsins renna. En á Austurlandi eru fjölmargar silungsveiðiár þar sem aðallega veiðist bleikja, þó urriði finnist einnig víða. 

Ein af betri sjóbleikjuám landsins er Norðfjarðará í Norðfirði, stutt frá Neskaupstað. Hún á sér trygga aðdáendur og eru leyfi oftast uppseld þegar líða fer á vorið. Ekki er óalgengt að veiðin sé þetta 700 – 800 bleikjur á sumri og eru þær flestar um 1 – 2 pund. Besti tíminn er júlí og fram í ágúst. Það að efsti kafli árinnar séu friðaður hefur gefið góða raun. 

Stutt frá Norðfjarðará eru Eskifjarðará, Sléttuá í Reyðarfirði og svo Dalsá í Fáskrúðsfirði. Í öllum þessum ám er sjóbleikja, þó það megi nú segja að þær fyrst nefndu hafi verið stórlega spilltar með malartekju. Í Eskifjarðará veiðist nú aðallega í ósnum, en einnig má fá fiska á veiðistöðum inn af eyðibýlinu Eskifjarðarseli. Í Sléttuá er mest veitt fyrir landi jarðarinnar Sléttu, en einnig getur verið fín veiði inn af Melshorni þar sem árnar úr Skógdal og Þórsdal renna í Sléttuá. Besti tíminn er svipaður og í Norðfjarðará, stærstu bleikjurnar koma í júlí og þær smærri í ágúst.  

Fallegur veiðistaður í Dalsá

Dalsá í Fáskrúðsfirði er lagleg dragá og meira stunduð en Sléttuá og Eskifjarðará. Stærð bleikjunnar er þó svipuð, getur verið upp í 3-4 pund. Í Dalsá veiðist einnig eitthvað af laxi. Stutt frá Dalsá er Tungudalsá en í henni er einnig sjóbleikja. Hún hefur þann galla að breyta sér töluvert á milli ára, vegna mikilla hlaupa sem eru tíð. Þó virðast nokkrir veiðistaðir halda sér árlega og þar má fá bleikju af sömu stærð og í Dalsá. Báðar árnar er með ófiskgengum fossum og er Tungudalsá aðeins fiskgeng um 4 km.     

Í Breiðdalsá, sem er orðin vinsæl hjá hópum, er boðið upp á vorveiði og glæsilega gistiaðstöðu frá 1. maí. Veiðin fer fram á neðsta hluta árinnar, þar sem aðallega er að finna sjóbleikju en einnig einstaka sjóbirting og lax. Yfir sumartíman má svo sækja inn á dal, ofan við fossinn Beljanda, og kasta fyrir staðbundinn urriða. Hann er einnig að finna ofarlega í Norðurdalsá, sem sameinast Tinnudalsá og eru hluti af vatnakerfi Breiðdalsá. Á þessum tíma geta menn fengið gistingu í veiðihúsinu, eða þá í gistigámum rétt við veiðihúsið með afnot af baðherbergi. 

Fjarðará í Borgarfirði, þarna leynast fallegar bleikjur

Þá ber næst að nefna þær fjölmörgu ár sem bera nafnið Fjarðará. Ein er í Borgarfirði Eystri, önnur í Loðmundarfirði og enn önnur í Seyðisfirði. Sú fyrst nefnda, er ásamt hliðará sinni Þverá, drjúg sjóbleikjuveiðiá. Þær eiga vaxandi vinsældum að fagna, en eru kannski heldur út úr alfara leið. Til að gera langa sögu stutta, þá er sú Fjarðará sem rennur um Loðmundarfjörð einungis nýtt af landeigendum. Vinsælust er Fjarðará í Seyðisfirði. Hún að upptök sín á Fjarðarheiði og rennur neðsti hluti hennar í gegnum kaupstaðinn. Í henni er góð sjóbleikja, talsvert af 2-3 punda fiskum en þó mest í kringum pundið. Hún hentar vel fyrir fluguveiði, enda með fjölbreytt úrval veiðistaða. Besta veiðin er talin vera síðsumars. 

Ekki ýkja langt frá Egilsstöðum eru veiðisvæði Selfljóts og Gilsár. Þetta er vinsælt veiðisvæði, enda veiðistaðir fjölbreyttir og ekki skemmir að Dyrfjöll og Beinageitarfjall tróna yfir þeim. Á miðsvæðum árinnar má finna hvort tveggja bleikju og urriða, ágætan fisk en stærstu bleikjurnar er þó að finna í Gilsá og einnig í Bjarglandsá. Þegar líður á sumarið má þar einnig fá lax. Smá keyrsla er að ósasvæði árinnar en þar er boðið upp á vorveiði á bleikju og sjóbirtingi. Þó aðeins um helgar og er veiðitíminn sveigjanlegur í 12 klst á sólarhring. Annars þá opna svæðin 20. júní og í byrjun júlí. Veiðisvæði sem hefur margt uppá að bjóða fyrir allar gerðir veiðimanna. 

Veiðisvæði Selfljóts eru fjölbreytt og spennandi, mynd af 5 svæði

Fögruhlíðarós er annað rómað sjóbleikjusvæði þar sem veiða má inn í nóttina. Þar hafa veiðimenn upplifað hreint magnaða veiði með flugustöng að vopni. Sjóbirtingur sveimar einnig um svæðið í einhverju mæli og einn og einn lax. Ofar í ánni eru ágætis urriða mið.  

Að lokum ber að nefna nokkrar ár þar sem urriði veiðist í meira mæli eða eingöngu. Múlaá fellur úr Skriðuvatni í Suðurdal. Í vatninu er hvort tveggja bleikja og urriði, en einungis urriði í ánni. Veiði er leyfð efst í Múlaá, þar sem hún verður til úr hálfgerðu lóni sem fellur úr Skriðuvatni. Þarna veiðast vænir urriðar. Svæðið er hluti af Veiðikortinu og stutt frá þjóðvegi eitt. Kelduá er dragá í Fljótsdalshreppi og á upptök sín í Kelduárvatni. Í henni er mikið af urriða, fremur smáum en gaman að kljást við hann á léttan búnað. Þarna var á sínum tíma góð bleikjuveiði, en hún er að mestu leyti horfin. Í Kelduá eru nokkrir álitlegir veiðistaðir og er sá vænlegasti, Hrakhamarshylur, neðan við bæinn Víðivelli. Aðeins 12 km frá Egilsstöðum er Rangá sem kemur úr Sandvatni og rennur í Lagarfljót. Eins og í Kelduá, er það aðallega smár urriði sem veiðist og þá aðallega í uppánni. Á árum áður var mikil bleikjuveiði í ánni og þá sérstaklega þar sem hún rennur í Lagarfljót. Nú er sagan önnur, en veiðin spilltist við virkjunarframkvæmdir að Kárahnjúkum. Rangá er fiskgeng upp að fossi, en þar eru veiðistaðir í gili sem erfitt er að nálgast. En neðar eru margir fallegir hyljir og er þekktasti veiðistaðurinn, Árkrókur, í beygju þar sem Merkjalækur rennu í ána.   

Björn H

Mjög sáttur með veiðitímabilið

Björn Hlynur Pétursson er iðinn með stöngina

Björn Hlynur Pétursson fyrr í sumar í Tungufljóti með særsta fiskinn sinn í sumar, 92 sentimetra.

,,Já ég er mjög sáttur með veiðitímabilið sem ég endaði í fyrradag í Eystri Rangá og ég veiddi fjóra laxa þar, þetta var fínt sumar“ sagði Björn Hlynur Pétursson, sem náði nánast upp á dag, að veiða alla daga í allt sumar. Já hann er með stöngina í hendinni allt sumarið.

,,,Ætli ég sé ekki búinn að veiða á milli sextíu og sjötíu laxa og þá hef ég veitt í hinum og þessum laxveiðiám, svo eru silungarnir nokkur hundruð sem maður hefur veitt. Mikið af stórum urriða á Kárastöðum en það er flott veiðisvæði. Ég er búinn að vera frekar mikið að veiða í sumar.

Var að veiða og var í Eystri Rangá í fyrradag. síðasta daginn og fékk fjóra laxa. Stærsti fiskurinn í sumar var í Tungufljótinu og hann var 92 sentimetrar. Sumarið hefur verið verulega flott og maður elskar að veiða eins mikið og hægt er á hverju ári . Maður er farinn að telja niður dagana í næsta veiðitímabil“ sagði Björn Hlynur enn fremur.

Ljósmynd/Björn Hlynur Pétursson

Stangveiði – Veiðin.is · Lesa meira

Ungu veiðimenn

Ungu veiðimennirnir komu á óvart í sumar

,,Þetta er stórkostleg sjón að sjá alla þessa ungu veiðimenn hérna við höfnina í Hafnarfirði og allir áhugasamir mjög að reyna við fiskana“ sagði eldri kona við mig við höfnina í Hafnarfirði þegar dorgveiði keppnin fór fram í Hafnarfirði fyrr í í sumar og það voru orð að sönnu.

Áhuginn var ótrúlegur. Margir ungir veiðimenn hafa byrjað að veiða í sumar og fengið delluna, eða eins og einn faðirinn sagði, sonurinn er kominn með alltof mikla veiðidellu.

Hann vill veiða hverja helgi og helst alla helgina ef hann getur, hann er alveg hættur í tölvunni. Sé hann varla lengur í tölvuhangsi lengur.

Já margir hafa veitt sinn fyrsta fisk og ennþá fleiri fengið maríulaxinn sinn í sumar. Það er frábært að veiða maríulaxinn sinn og finna tilfinnguna að landa honum. Við viljum fleiri unga veiðimenn við vötnin og árnar, það er framtíðin.

Stangveiði – Veiðin.is · Lesa meira

Stirður1

Stirða veiðir allt

Flugan Stirða hefur vakið mikla eftirtekt í áraraðir. Það eru fáar flugur sem hafa þann eiginleika að veiða allar tegundir ferskvatnsfiska. Það er Dalvíkingurinn Marínó H. Svavarsson (Matti Guss) sem er höfundur Stirðu og hefur hnýtt hana fyrir verslanir og velunnendur til fjölda ára.   

Lax sem Matti fékk úr Fljótaá á Bismo Stirðu

Það voru fyrst þær skærlituðu sem vöktu áhuga stangveiðimanna; sú appelsínugula, bleika og rauða. Þær hafa verið ómótstæðilegar í sjóbleikjuveiði, vatnaveiði og reynast einnig vel í sjóbirtingi. Sú svarta hefur einnig verið ótrúlega gjöful, en hana má nota á allar tegundir ferskvatnsfiska og vert að geta þess að allmargir laxar hafa fallið fyrir henni. Aðrir litir; hvítur, brúnn og grænn gefa mönnum fiska við sérstakar aðstæður. 

Dagsverk Matta og uppáhalds bollinn hans

Nú upp á síðkastið hefur Matti verið að bæta í flóruna Stirðum sem hann vill meina að séu gjöfular með ólíkindum, eitthvað svipað og þekkist með Frances og Sunray Shadow í laxveiði eða Pheasant Tail í silungnum. Þær reynast vel við veiðar á öllum ferskvatnsfiskum og þykir það merkilegt hversu góðar þær eru í laxveiði. Enn eru þetta hálfgerð “leynivopn” sem eru í þróun, annars vegar Bismo Stirða og hins vegar Psycho Stirða. Matti segir að Stirða líkist einna helst dauðu eða særðu hornsíli, en þær hreyfa sig þannig í vatninu. Sjálfur kastar hann þeim gjarnan andstreymis, sem gefur þeim þennan eiginleika.  

Ljósmyndir/Matti Guss – Birtar með leyfi höfundar

Valdimar kennsla

Kennir náttúrufræði með fluguhnýtingum

Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir skrifar / 06.09.2021 kl. 15:00

Valdimar Heiðar Valsson er nýr skólastjóri Hlíðarskóla við Skjaldarvík. Hann er mikill stangveiðimaður og ætlar að flétta kennslu í fluguhnýtingum saman við ýmis önnur fög.

„Fræðslan verður í formi kynningarmyndbanda, fyrirlestra og efnis af internetinu. Til að mynda verður vatnakerfið í ám og vötnum rannsakað og fræðst um hvað er að gerast undir yfirborðinu þegar lirfur og flugur eru að klekjast. Tekið verður fyrir ákveðið verkefni í hverri kennslustund. Hugað verður að lífsferli flugunnar frá lirfum og þangað til þær klekjast út sem flugur. Við líkjum eftir hverju stigi og tökum hvert ferli fyrir sig og lærum um það. Verkefnið okkar er að hnýta flugur sem eru sambærilegar. Alltaf verður reynt að líkja eftir því æti sem er undir yfirborðinu. Þetta er því jafnframt kennsla í náttúrufræði,“ segir Valdimar í samtali við Akureyri.net.

En hvernig kviknaði hugmyndin?

„Áður en ég tek við skólastjórastöðunni þá hitti ég strák við Ljósavatn, sem er nemandi hér, og við fórum að spjalla á meðan við vorum að veiða. Svo æxlast það þannig að ég er ráðinn hingað sem skólastjóri og þá fer ég strax að hugsa um áhugann sem þessi drengur hafði á veiði. Ég vissi að ef ég gæti fléttað áhugamálið hans við nám að þá fyndist honum ábyggilegra skemmtilegra að læra.“

Það kom svo í ljós þegar hann hitti alla nemendur skólans að þrír í viðbót höfðu mikinn áhuga á veiði og fluguhnýtingum. „Þeir nemendur hafa verið að koma með fluguboxin sín í skólann og sýna mér og það er rosalega gaman að deila áhugamáli með nemendum sínum.”

Rífum niður alla múra

Í Hlíðarskóla er pláss fyrir 20 nemendur. Skólinn er rekinn af Akureyrarbæ og ætlaður fyrir börn sem glíma við einhverskonar vanda í skólakerfinu. Flóra nemenda er breið en þau eiga það sameiginlegt að hafa ekki verið að finna sig í skólakerfinu og í sínum heimaskóla. Þegar reynt hefur verið til þrautar að finna lausnir í þeirra heimaskólum, fara sum barnanna í Hlíðarskóla. „Stundum þurfa þau bara að skipta um umhverfi, stilla kompásinn upp á nýtt og reyna svo aftur í sínum heimaskóla. Oft hefur þetta mikið með vanlíðan að gera hjá einstaklingnum og við vinnum dálítið í því að komast að rót vandans því það er dálítið erfitt fyrir barn að læra ef því líður illa og fyrir því geta verið ótal ástæður. Við erum með öflugt teymi sem vinnur að bættri líðan barnanna og síðan erum við með foreldravinnu og vinnum náið með þeim. Það er alltaf markmiðið hjá okkur í Hlíðarskóla að koma nemandanum á beinu brautina svo hann geti farið aftur í sinn heimaskóla.”

Valdimar bætir við: „Það sem mér finnst áhugavert við nám er að það er hægt að fara svo margar leiðir, möguleikarnir eru endalausir ef maður er bara nógu frjór í hugsun. Ég er svo heppinn að hafa alveg ótrúlega gott starfsfólk með mér í Hlíðarskóla og við deilum þeirri sýn að nálgast nám á eins fjölbreyttan hátt og hægt er. Ég sagði mínu starfsfólki fyrsta daginn sem ég hitti þau að við myndum rífa niður alla múra og leita allra leiða til að vekja áhuga nemandans á námi og það finnst mér við vera að gera. Við erum líka með nokkrar aðrar hugmyndir sem eru í vinnslu þannig að við erum rétt að byrja.“

Hvað eru flugurnar margar?

Valdimar segir að nám þurfi ekki endilega að vera kennt á bókina og enn séu margir kennarar of fastir í því. Sumir nemendur glíma við námsörðugleika og eiga erfitt með að finna hvatann til að læra. Þá er gott að leitað sé annarra leiða í kennslunni til að fá tilbreytingu og annan vinkil á námið. Gera áhugamál þeirra t.d. að námsefni, hvort sem það er veiði, íþróttir eða eitthvað annað. „Það er miklu meira spennandi að hnýta fimm laxaflugur og margfalda síðan hvað maður væri kominn með margar laxaflugur eftir hvert skipti en sitja með bók og læra fimm sinnum töfluna.“ 

Valdimar fór að velta fyrir sér hvernig hægt væri að hrinda hugmyndinni í framkvæmd því það er kostnaðarsamt að koma upp aðstöðu til fluguhnýtinga. Hann ákvað að biðla til meðlima veiðisamfélags á Facebook sem kallast „Veiðidellan er frábær“. Þar sagði hann frá því að hann væri ný tekinn við sem skólastjóri Hlíðarskóla og væri með hugmynd um að nálgast kennsluna á öðruvísi hátt – með fluguhnýtingum. En það væri gríðarlega dýrt að koma upp aðstöðunni og skólinn hefði ekki bolmagn til að kaupa búnaðinn. Ef einhver ætti dót sem safnaði ryki, þá yrði hann mjög þakklátur ef skólinn gæti fengið að nýta það.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Það eru ótrúlega margir sem eru búnir að gefa okkur fullt af dóti; hnýtingarefni, væsa, tæki og tól. Það liggja mikil verðmæti í þessum gjöfum, tugir, jafnvel hundruð þúsunda. Við verðum með flotta aðstöðu til fluguhnýtinga í vetur og mér finnst alveg frábært að skólinn geti boðið upp á hana.“

Hnýta í vetur – veiða í vor

Valdimar vill koma á framfæri miklu þakklæti til þeirra sem létu þetta verkefni verða að veruleika.

„Við munum nú byrja á því að setja upp aðstöðuna. Það þarf að byrja á að flokka og merkja búnaðinn. Þar mun reyna á samskipti, samvinnu og skipulag. Þetta er líka lífsleikni því allir þurfa að vinna saman.“

Fluguhnýtingar er valfag. Hægt er að velja í hverja viku fyrir sig. Í fyrsta tíma eru skráðir fjórir af þeim sautján nemendum sem eru í skólanum, svo það gæti bæst í hópinn. Það verður hnýtt í allan vetur, alls konar gerðir af flugum t.d. púpur, votflugur, straumflugur og laxaflugur og nemendur læra að nota réttu handtökin þegar kemur að fluguhnýtingum.

Markmiðið er svo að fara í veiðiferð í vor. Þá spreyta þau sig með flugurnar sem þau hafa hnýtt um veturinn.

Valdimar er fæddur á Akureyri en ólst upp á Hauganesi. Þar lék hann sér mikið í fótbolta og eyddi löngum stundum við veiðar á bryggjunni. Veiðin er honum í blóð borin og hefur alltaf verið eitt af hans aðal áhugamálum. Hann býr nú á Akureyri ásamt sambýliskonu sinni og eiga þau þrár dætur.

Valdimar starfaði á meðferðarheimilinu á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit í 11 ár. Heimilið var fyrir stúlkur sem voru langt leiddar vegna vímuefnaneyslu. Hann hefur því, auk kennsluréttinda, mikla þekkingu og reynslu af að hjálpa einstaklingum sem þurfa að takast á við erfiðar áskoranir. Þetta er þó í fyrsta skipti sem hann stígur inn í grunnskóla sem starfsmaður og er að læra allt mjög hratt. Hann brennur fyrir að vinna með krökkum í vanda og er spenntur fyrir vetrinum í Hlíðarskóla.

Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Frétt fengin með leyfi á Akureyri.net