Sportveiði

Haustblað Sportveiðiblaðsins er komið út!

Nýtt tölublað Sportveiðiblaðsins var að koma út og ætti að vera á leið til áskrifenda sem og á alla helstu sölustaði.

Í blaðinu má finna flott viðtal við Guðrúnu Hildi Jóhannsdóttur laxveiðikonu og Matthías Þór Hákonarson leigutaka Mýrarkvíslar. Gunnar Helgason leikari með flott efni og veiðistaðalýsingar fá sinn sess en veiðistaðir í Andakílsá eru teknir fyrir í þessu tölublaði.

Hvað er betra en að grípa Sportveiðiblaðið og lesa meðan beðið er eftir rigningunni!

Takk fyrir sumarið og megi haustið koma fagnandi!

Veiðar · Lesa meira

SVAK

Á ferðinni á bökkum Svarfaðardalsár

Þeim sem þykir fátt skemmtilegra en að veiða sjóbleikju sækja oft Eyjafjörðinn heim en um hann renna allmargar góðar sjóbleikjuár. Dugar þar að nefna Eyjafjarðará, Fjarðará (Ólafsfjarðará), Hörgá og Svarfaðardalsá. Eyjafjarðará var sú þeirra sem fékk lengi mesta athygli, en nú hefur dregið úr veiði vegna ástands sjóbleikjustofnsins og í raun í öllum ánum. Nú er sóknin í Eyjafjarðará nánast eingöngu bundin við eitt svæði, það fimmta. Aftur á móti, hefur sjóbleikja í Fjarðará, Hörgá og Svarfaðardalsá verið að fást víða í ánum. Sú staðreynd og hærri dagskvóti eykur þar sóknina. Þetta sumar hafa veðurfarslegar aðstæður gert það að verkum að Hörgá og Svarfaðardalsá, sem eiga það til að jökullitast, hafa verið veiðilegar dag eftir dag.   

Sú á sem gefið hefur mesta sumarveiði hingað til, miðað við skráningu, er Svarfaðardalsá. Hún er dragá, frekar köld og oft jökullituð á sumrin. Veiðisvæðið er um 35 km langt, skipt í 5 svæði og eru tvær stangir leyfðar á hverju þeirra. Sjóbleikjugöngur ná oftast hámarki í lok júlí og fyrstu tvær vikurnar af ágúst. Það getur svo sannarlega verið skemmtilegt að ganga um bakka Svarfaðardalsár eins og samantektin hér að neðan greinir frá. 

“Átti heilan dag í Svarfaðardalsá þann 9. ágúst, 3 og 5 svæði um morguninn og svo svæði 5 seinni partinn. Var mættur rétt eftir 7:00 og hóf veiðar ofarlega á svæði 5, neðan við bæina Göngustaði og Göngustaðakot. Þar rennur áin í kvíslum, veiðistaðirnir eru litlir og viðkvæmir sem gerir þetta allt svo heillandi. Tókst að setja í 5 fiska og náði 4 á land. Það kom nokkuð á óvart að einn þeirra reyndist sjóbirtingur sem veiðist sjaldan svona ofarlega í ánni. 

Frá efri hluta 5 svæðis lá leiðin svo alla leið niður á neðri hluta svæðis 3. Neðan við bæinn Grund eru nokkrir fínir staðir þar sem oft má finna göngufisk en nú var raunin önnur. Færði mig því ofar og byrjaði á því að kíkja á breiðu neðan við golfvöllinn. Varð ekki var þar en fékk svo tvær nokkuð ofar á fallegum veiðistöðum milli golfvallarins og bóndabæinn Bakka. Þar sem það var frekar lítið líf á neðri hluta svæðis 3 var best að halda ofar á staði ofan við Bakka og upp að mótum Svarfaðardalsár og Skíðadalsár. Best er að nálgast þá staði með því að fylgja vegi niður Tungurnar og leggja bíl sínum rétt ofan við ármótin. Þaðan er stutt vegalengd niður á efri hluta svæðis 3 þar sem finna má marga fína veiðistaði. Þarna gerast oft ævintýri og á leið minni náði ég 5 sjóbleikjum og var ein þeirra 55 cm.  

Á seinni vaktinni hófst veiðin neðan við Höfða, félagsheimili þeirra Svarfdælinga sem stendur við ána um mitt 5 svæði. Þaðan var ákveðið að fara í gönguferð niður með ánni og veiða alla þá staði sem á leið minni yrðu. Lítið var um fisk fyrr en komið var á veiðistaði neðan við Mela og að Hreiðarstöðum. Á þeim kafla náðust 6 fiskar, 5 bleikjur og einn urriði. Oft er það nú þannig að maður missir þá stærstu og það átti svo sannarlega við þarna. Stór bleikja sem lét ekki af stjórn og sleit hjá mér. En svakalega var þetta nú gaman. Nú var smá tími aflögu til að skoða staði rétt fyrir neðan brú en hafði ekki árangur sem erfiði”                

Að mestu var fiskurinn að taka kúlupúpur, helst PT afbrigði, Copper John, Rainbow Warrior og San Juan blóðorma. Einnig fengust nokkrar á hina öflugu Stirðu og var sú rauða sterkust. Allar þessar flugur fást hér á Veiðiheimum. 

Veiðileyfi í Svarfaðardalsá: veiditorg.is

Ljósmyndir/Veiðiheimar Kort/veiditorg.is

Heimild: Högni Harðarson

Guttinn fór á kostum í veiðinni

Guttinn fór á kostum í veiðinni

Silungsveiðin hefur víða gengið mjög vel og margir fóru til veiða um helgina og fiskarnir virðast vel haldnir og vænir. „Mjög góð veiði er á Arnarvatnsheiðinni og fallegir fiskar að veiðast,“ sagði Andri Þór Arinbjörnsson í samtali um ferð sína á heiðina um helgina. 

Ármann er 11 ára og er við veiðar á Arnarvatnsheiðinni meðal annarra veiðimanna. Hann er nýlega byrjaður að veiða á flugu og búinn að fá talsvert af vænum fiski. Silungarnir eru flottir og Skagaheiðin hefur einnig verið að gefa vel og bleikjan veiðist líka vel í Hraunsfirði.

Ljósmynd/Ármann með eina væna af Arnarvatnsheiði

Veiðar · Lesa meira

Hvað er að gerast í lífríki Þingvallavatns

Hvað er að gerast í lífríki Þingvallavatns

„Þetta er ekkert í lagi að urriðinn sé illa haldinn í vatninu og ég hef ekki séð murtu í ÞIngvallavatni í fjögur ár,“ sagði veiðimaður sem hefur mikið veitt í vatninu til fjölda ára og veitt þar marga væna fiska. 

„Það er mikið að. Við veiddum urriða um daginn og hann var mjór og illa haldinn, það verður að rannsaka þetta sem allra fyrst,“ sagði veiðimaðurinn og það hafa margir aðrir tekið í sama streng.

Murtan er horfin úr vatninu og sést þar ekki lengur, urriðinn er magur og bleikjan er á undanhaldi. Það þarf að hefja rannsóknir á vatninu hvað hefur breyst og hvað sé framundan.

Höfum rætt við fjölda veiðimanna sem hafa sömu sögu að segja, einn hafði veitt níu urriða sl. vor, einn af þeim var í fínu lagi hinir bara slápar og ekki ætir. Þeim var sleppt aftur í vatnið og vonandi ná þeir að stækka og dafna í Þingvallavatni.

Ljósmynd/Séð yfir Þingvallavatn

Veiðar · Lesa meira

Eitt skrýtinn

Sérstakur urriði úr Laxá

„Já við fengum þennan urriða á Staðartorfu í Laxá og já hann var skrítinn, ekki veitt svona fisk áður,“ sagði Annel Helgi Daly Finnbogason þegar við heyrðum í honum þar sem hann var að ljúka löngu gæssarfi í bili. 

„Það var veiðimaður frá Sviss sem veiddi fiskinn, Elia 16 ára, en urriðinn tók sunray uppstrem og ég hef ekki séð svona urriða áður. Ég hef veitt þá marga um ævina. Fékk líka skrítna bleikju í Lónsá í Kelduhverfi um daginn. Er að klára fjórtán daga leiðsögn og gekk vel,“ sagði Annel Helgi enn fremur.

Það er kannski heldur sterkt að kalla þetta loðsilung sem áður fyrr var veiddur hérna, en fallegur er hann kannski ekki.

Ljósmynd/sérstakur í útliti er hann

Veiðar · Lesa meira

veidikortid.is

Frostastaðavatn

Ég mæli hiklaust með því að fara í Frostastaðavatn með unga veiðimenn til að leyfa þeim að æfa sig.

Ég fór með strákana mína í 2 daga þangað og það var vægast sagt ævintýri. 

Kristófer er að stíga sín fyrstu skref í fluguveiði og Magnús er að stíga sín fyrstu skref í veiði almennt, og þeir mokuðu báðir inn fiskum.

Þær eru kannski ekki stórar bleikjurnar þarna en það skiptir ekki öllu máli fyrir unga veiðimenn, hver fiskur telur. 

Í Frostastaðavatni er skilda að drepa alla bleikju því vatnið þarf stórlega á grisjun að halda, og gengu mínir menn sáttir frá borði með yfir 90 bleikjur, mikið af smælki sem við sjóðum í köttinn en svo voru líka flottar bleikjur alveg upp í 3 pund.

Það þarf ekki stóran bíl til að komast þangað, en við fórum á óbreyttum jeppling og það var ekkert mál. 

Við tjölduðum við Landmannahelli þar sem er frábær aðstaða með klósettaðstöðu og aðgerðarborði.

Fyrir utan ævintýralega veiði fyrir krakka er náttúran þarna stórbrotin, sem gerði þessa ferð ennþá meira spennandi!

Við feðgar erum komnir heim og förum sáttir á koddann í kvöld.

Ljósmynd/Frostastaðavatn

Veiðar · Lesa meira

Flott bleikja úr Úlfljótsvatni – miklar breytingar í Þingvallavatni

Flott bleikja úr Úlfljótsvatni – miklar breytingar í Þingvallavatni

„Ég er aðeins búinn að veiða á nokkrum stöðum í sumar fór í opnunina í Hítarvatni og líka búinn að vera á Þingvöllum og Úlfljótsvatni, þar veiddist þessi bleikja,“ sagði Óskar Norðfjörð, þegar við heyrðum í honum, eftir að hann landaði bleikjunni flottu.

„Maður þarf að vera duglegur að lemja Úlfljótsvatnið og labba til að finna bleikjuna og yfirleitt eru þær stórar þegar maður hittir á réttan stað. Það var mokveiði í Hítárvatni en það hafa orðið miklar breytingar í Þingvallavatni síðan ég byrjaði að veiða þar fyrir 25 árum. En ég hef eingöngu veitt við Arnarfellið á Þimgvöllum en mest öll bleikjan er horfinn þaðan. Öll smábleikja er algjörlega horfin sem er mjög slæmt mál og urriðinn orðinn mjór, urriðaslápar,“ sagði Óskar enn fremur.

Ljósmynd: Óskar Norðfjörð með flotta bleikju úr Úlfljótsvatni

Veiðar · Lesa meira